
Mikilvægt að allir bændur fylgist með áhrifum eldgossins
16.04.2010
Bændur á Suðurlandi og austur í Skaftafellssýslum standa nú í ströngu vegna gossins í Eyjafjallajökli og afleiðinga þess. Bændasamtökin hafa komið á fót viðbragðshópi sem í eru starfsmenn og stjórnarmenn og fundaði hann í gær. Ýmsar spurningar vakna eðlilega við hamfarir sem þessar, m.a. um áhrif öskufalls, mögulega flutninga á bústofni, tryggingamál, fóðurbirgðir og flutninga.
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, hvetur bændur um allt land að vera á varðbergi vegna gossins og kynna sér vel þær leiðbeiningar sem til eru um viðbrögð við gjóskufalli. „Við höfum lagt á það áherslu að miðla efni til bænda um rétt viðbrögð við hamförunum, m.a. í Bændablaðinu og á vefnum bondi.is. Bændur hafa hringt í samtökin og boðið fram aðstoð sína, m.a. beitarhaga og húspláss en enn sem komið er ótímabært að koma slíku í framkvæmd. Menn velta fyrir sér flutningum á búpeningi en engar áætlanir eru uppi um slíkt og ótímabært að ráðast í þá eins og staðan er nú. Það er lán í óláni að búpeningur er almennt á húsi,“ segir Haraldur. Hann leggur áherslu á að bændur nýti sér þjónustu ráðunauta og fari eftir þeim leiðbeiningum sem yfirdýralæknir hefur komið á framfæri um viðbrögð vegna áhrifa gosefna á búpening. „Þó svo að áhrif gossins séu nokkuð staðbundið þá getur brugðið til beggja vona og gosaska dreifst víða um land. Í ljósi þess er mikilvægt að brýna alla bændur, hvar sem þeir eru í sveit settir, að huga að sínu,“ segir formaður Bændasamtakanna og bætir því við að viðbrögð bænda, annarra íbúa og viðbragðsaðila fyrir austan hafi verið til mikillar fyrirmyndar.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur boðað fund í dag með hópi fulltrúa frá ýmsum undirstofnunum ráðuneytisins og hagsmunasamtökum til þess að ræða um möguleg áhrif gossins. Á þann fund munu koma fulltrúar frá Almannavörnum og Veðurstofu Íslands og ræða um horfurnar framundan eftir því sem hægt er. Tilgangurinn með fundinum er að glöggva sig sem best á mögulegum áhrifum gossins á landbúnað, sjávarútveg, fæðuöryggi og náttúrugæði sem falla undir ráðuneytið.
Upplýsingar um viðbrögð við eldgosum - tenglar o.fl.

Leiðvöllur í Meðallandi að morgni 15. apríl. Mynd: Valgerður Erlingsdóttir
Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, hvetur bændur um allt land að vera á varðbergi vegna gossins og kynna sér vel þær leiðbeiningar sem til eru um viðbrögð við gjóskufalli. „Við höfum lagt á það áherslu að miðla efni til bænda um rétt viðbrögð við hamförunum, m.a. í Bændablaðinu og á vefnum bondi.is. Bændur hafa hringt í samtökin og boðið fram aðstoð sína, m.a. beitarhaga og húspláss en enn sem komið er ótímabært að koma slíku í framkvæmd. Menn velta fyrir sér flutningum á búpeningi en engar áætlanir eru uppi um slíkt og ótímabært að ráðast í þá eins og staðan er nú. Það er lán í óláni að búpeningur er almennt á húsi,“ segir Haraldur. Hann leggur áherslu á að bændur nýti sér þjónustu ráðunauta og fari eftir þeim leiðbeiningum sem yfirdýralæknir hefur komið á framfæri um viðbrögð vegna áhrifa gosefna á búpening. „Þó svo að áhrif gossins séu nokkuð staðbundið þá getur brugðið til beggja vona og gosaska dreifst víða um land. Í ljósi þess er mikilvægt að brýna alla bændur, hvar sem þeir eru í sveit settir, að huga að sínu,“ segir formaður Bændasamtakanna og bætir því við að viðbrögð bænda, annarra íbúa og viðbragðsaðila fyrir austan hafi verið til mikillar fyrirmyndar.
Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hefur boðað fund í dag með hópi fulltrúa frá ýmsum undirstofnunum ráðuneytisins og hagsmunasamtökum til þess að ræða um möguleg áhrif gossins. Á þann fund munu koma fulltrúar frá Almannavörnum og Veðurstofu Íslands og ræða um horfurnar framundan eftir því sem hægt er. Tilgangurinn með fundinum er að glöggva sig sem best á mögulegum áhrifum gossins á landbúnað, sjávarútveg, fæðuöryggi og náttúrugæði sem falla undir ráðuneytið.
Upplýsingar um viðbrögð við eldgosum - tenglar o.fl.

Leiðvöllur í Meðallandi að morgni 15. apríl. Mynd: Valgerður Erlingsdóttir