Beint í efni

Mikilvægi hirðingarsýna og heyefnagreininga

26.06.2008

Nú er sláttur víða í hámarki til sveita og gott fyrir bændur að huga að hirðingarsýnum. Heyefnagreiningar geta lagt grunninn að hagkvæmari búrekstri. Mikilvægasta hluta heyforðans á hverju búi er aflað í byrjun sláttar, - þ. e. þess rúmlega þriðjungs heyforðans sem skiptir sköpum um fóðrun sauðfjár á fengitíma og á sauðaburði og hjá mjólkurkúm um burðinn og á fyrri hluta mjólkurskeiðsins.

Stór hluti framleiðslukostnaðar á heyi er þegar fallinn til. Þess vegna skiptir miklu máli að standa sem best að vali á sláttutíma og heyverkun til að tryggja gæði heyjanna.

Tölulegar upplýsingar um heygæðin (meltanleiki, orka, prótein, steinefni) eru lykill að hagkvæmri fóðrun, gerð fóðuráætlana og einnig áburðar- og ræktunaráætlana næsta vor. Kostnaður við greiningu heysýna er aðeins brot af þeim tekjuauka sem upplýsingar um heygæðin geta skilað í vasa bóndans.

Eftirfarandi grein eftir Gunnar Guðmundsson, sviðsstjóra hjá BÍ, fjallar um nauðsyn þess að taka hirðingarsýni og er hún birt hér í heild sinni:

Heysýnataka og heyefnagreiningar

Heysýnataka - hirðingarsýni

Okkar aðalheyverkunaraðferð, - rúlluverkunin, - gerir að verkum að taka hirðingarsýna er einföld, hagkvæm og nægilega nákvæm leið, sem bændur sjálfir geta farið. Það eina sem til þarf er góður, loftþéttur plastpoki, tússpenni, örlítill tími og rými í ,,heimilisfrystikistunni".

Heysýnið þarf að gefa sem réttasta mynd af uppskeru hverrar spildu. Góð aðferð er því að ganga hornalínu spildunnar í þann mund sem hefja skal samantekt og rúllun (hirt) og grípa upp með reglulegu millibili litla heyvisk sem safnað er í knippi. Að lokum er þeim öllum blandað vel saman, tekið hæfilegt sýni: þéttur heyvöndull, ca. 10-12 cm í þvermál, sem stungið er í pokann. Að sýnatökulokinni er gott að fjarlægja sem mest af lofti úr pokanum og loka, merkja og koma honum í frysti sem allra fyrst. Heysýni í opnum poka sem velkist í dráttarvélinni langan tíma er lítils virði og getur ekki gefið þverskurðarmynd af því fóðri sem rúllað var. Að afloknum slætti eru öll heysýnin send til greiningar. Niðurstaðan á að geta legið fyrir nokkru áður en innifóðrun hefst.

Nauðsynlegt er að merkja heysýnin vel og tryggilega með upplýsingum um býlið (heiti býlis og bænda, búsnúmer, hreppur, póstnúmer, landssvæði) númer sláttar, spilduheiti (spildunúmer), sláttudagur, dagsetning sýnatöku/hirðingar. Ennfremur er æskilegt að fram komi upplýsingar um grastegundir (ríkjandi) og þroskastig (t. a. m. hvenær vallarfoxgras byrjaði að skríða) og að tekið sé fram ef um grassýni /grænfóðursýni eða sýni úr fullverkuðu fóðri er að ræða. Mörg búnaðarsamböndin hafa útbúið sérstök stöðluð eyðublöð til útfyllingar með heysýnum.

Er nauðsynlegt að taka sýni af öllum spildum túnsins árlega?

Svarið er nei! - en fer eftir aðstæðum. Skynsamlegast er að miða heysýnatökuna við besta hluta túnanna, - t. a. m. á kúabúi þann rösklega þriðjung sem er í bestri rækt og þarfa að geta gefið gæðamestu heyin (hey í gæðaflokki A með meltanleika þe. yfir 73 %). Þar með er ekki sagt að nauðsynlegt sé að taka sýni úr þessum hluta túnanna árlega. Einnig má hugsa sér að vinna eftir áætlun sem gengur út á að taka heysýni annað hvert ár af helstu spildum túnsins. Hér verður hver og einn bóndi að velja.
Hvað getur unnist með heysýnatöku og heyefnagreiningum?

Af helstu kostunum má nefna;
· grunnur hagkvæmrar fóðrunar og fóðuráætlangerðar
· grunnur hagkvæmrar jarðræktar, áburðarnotkunar og einnig að gerð ræktunaráætlana
· auðvelda rétt val á kjarnfóðurblöndu
Upplýsingar um heygæði auðvelda greiningu á orsökum efnaskipta- og fóðrunarsjúkdóma ef þeir koma upp.
GG/BÍ