Beint í efni

Mikill verðmunur á bæði rúlluplasti og rúlluneti

04.06.2010

Landssamband kúabænda birti í dag niðurstöður verðkönnunar sambandsins á rúlluplasti og rúlluneti. Fram kemur í könnuninni að all verulegur munur er á verði til bænda á báðum rekstrarvörum. Þá kemur jafnframt nokkuð á óvart, að mjög margir aðilar flytja þessar rekstrarvörur til landsins. LK kannaði verð á 75 cm rúlluplasti og 123 cm breiðu rúlluneti. Lægst var verðið á plastinu hjá fyrirtækinu Búvís og hæst var verðið hjá

fyrirtækinu Vélaval-Varmahlíð og munar þar 18% á hæsta og lægsta verði. Meðalverðið var 6,93 kr/meter plasts og var hæsta verðið 10,1% yfir meðalverðinu.

 

Verðmunur á sk. forstrekktu plasti reyndist einnig nokkur en þó verulega minni en á hefðbundnu plasti. Dýrasta forstrekkta plastið var hjá Sláturfélagi Suðurlands en það ódýrasta hjá Fóðurblöndunni. Munur á hæsta og lægsta verði var 15,4%. Meðalverðið var 6,14 kr/meter og var hæsta verðið 5,9% yfir meðalverðinu.

 

Mun meiri verðmunur reyndist á rúllubindineti en á rúlluplasti. Þar var hæsta verðið á netinu hjá Sláturfélagi Suðurlands og lægsta verðið hjá Bændaþjónustunni og reyndist verðmunurinn vera 48,3%. Meðalverðið var 8,21 kr/meter og var verð SS 25,4% yfir meðalverðinu.

 

Þess ber að geta að í öllum tilfellum voru söluaðilar spurðir um hagstæðasta verð sem var í boði 3. júní sl. og getur verið þónokkur munur á milli verðtilboða hvað snertir bæði greiðslukjör, kröfur um magninnkaup, flutningstilboð osfrv. Þá hefur ekki verið tekið tillit til mögulegs gæðamunar á framangreindum rekstrarvörum. Kúabændur eru því hvattir til þess að kynna sér vel bæði verð, kjör og vörugæði áður en tekin er ákvörðun um fjárfestingu í framangreindum rekstrarvörum.

 

Smelltu hér til þess að sjá nánari niðurstöður verðkönnunar LK