Mikill samdráttur í breskri mjólkurframleiðslu í vændum
10.04.2007
Samkvæmt skýrslu frá Milk Development Council í Bretlandi, eru líkur á að mjólkurframleiðsla í Bretlandi dragist saman um 900 milljónir lítra á næstu 2 árum. Það samsvarar um 7%. Ástæða samdráttarins er sú að gert er ráð fyrir að 16% framleiðenda hætti mjólkurframleiðslu á tímabilinu og að þeir sem eftir verða muni ekki ná tilsvarandi framleiðsluaukningu.
Grunnurinn að skýrslu MDC er skoðanakönnun sem gerð var meðal breskra kúabænda. Þar kemur fram að þeir hafa ekki mikla trú á framtíðinni og upplifi mikið óöryggi. Uppsöfnuð sé mikil fjárfestingarþörf í greininni, á sama tíma sem tekjur pr. lítra skerðast ár frá ári. Því sé ákaflega erfitt að fjármagna nauðsynlegar endurbætur á framleiðsluaðstöðu. Það vekur einnig athygli að hátt hlutfall, eða 12%, stórra framleiðenda með yfir 1,2 milljón lítra ársframleiðslu ætlar að hætta á næstu tveimur árum. Einnig sér yfir helmingur mjólkurframleiðenda fram á að geta ekki staðið undir nýjum lagakröfum um mengunarvarnir og umhverfismál. Þá ætla 3/4 bænda að fjárfesta minna en 3 milljónir á næstunni og einungis 3% meira en 12 milljónir.