Beint í efni

Mikill munur á kúabúum Norðurlandanna

30.07.2011

NMSM, samtök norrænna afurðastöðva í mjólkuriðnaði sem vinna að sameiginlegum málum sem snúa að mjólkurgæðum, taka árlega saman fjölþættar upplýsingar um mjólkurframleiðslu Norðurlandanna. Þar má m.a. sjá þróun á bústærð Norðurlandanna, nyt, fjölda gripa, sjúkdómatíðni, útbreiðslu mjaltaþjóna ofl. Vegna skorts á sjúkdómaskráningu hér á landi er ekki unnt að bera saman heilbrigðisupplýsingar á Íslandi við hin Norðurlöndin en margt annað áhugavert er þó hægt að bera saman eins og sjá má við lestur á meðfylgjandi skjali frá NMSM.

 

Þar kemur m.a. fram að þróun á fjölda kúabúa er mjög áþekk innan allra Norðurlandanna (bls. 2) en mikill munur er þó á þáttum innan búanna s.s. bústærð (bls. 6). Stærstu búin er í Danmörku en þau minnstu í Noregi. Þá er athyglisvert að sjá að próteinhlutfall íslenskrar mjólkur er áberandi lægra en meðal nágrannaþjóðanna en hinsvegar er fituhlutfallið í meðallagi (bls. 9 og 10).

 

Margt áhugavert má sjá í meðfylgjandi samantekt s.s. að meðalafurðir íslensku kúnna eru langt undir því sem þekkist í nágrannalöndunum (bls. 11) en vegið meðaltal orkuleiðréttrar mjólkur á Norðurlöndunum árið 2010 voru 8.977 kg en 5.499 kg hér á landi (bls. 4 og 11). Þá má sjá að margfeldismeðaltal tankfrumutölu er hæst í Danmörku en lægst í Noregi (bls. 13). Samanburðurinn sýnir einnig að frumutalan hefur verið að þróast í kórrétta átt hér á landi á liðnum árum.

 

Þá má benda á að hér á landi eru dauðfæddir kálfar mun meira vandamál en í nágrannalöndunum en af þeim sem fæðast lifandi eru hinsvegar mun færri sem drepast fram að 180 daga aldri en í nokkru öðru af Norðurlöndunum (bls. 19 og 20). Að síðustu má geta þess að ýmsar upplýsingar um frjósemi (aldur við fyrsta burð, bil milli burða osfrv.) benda til þess að hún sé í góðu standi hér á landi (bls. 25, 26, 27 og 28).

 

Ástæða er til þess að hvetja áhugasama til þess að skoða nánar meðfylgjandi samantekt NMSM með því að smella hér/SS.