Mikill munur á framleiðslukostnaði mjólkur
06.12.2011
Árlega gefa samtökin IFCN (International Farm Comparison Network) út áhugavert efni um mjólkurframleiðslu í heiminum og nýverið birtist á heimasíðu samtakanna (www.ifcnnetwork.org) skýrsla fyrir árið 2011. Samtökin safna mánaðarlega saman framleiðsluupplýsingum frá 49 löndum og fyrstu sex mánuði ársins jókst mjólkurframleiðsla þessara landa um 3%.
Í skýrslunni kemur fram að gríðarlega mikill munur er á meðal afurðum kúa eftir heimshlutum en meðal afurðasemi er að jafnaði yfir átta tonnum af orkuleiðréttri mjólk í Vestur-Evrópu, Norður-Ameríku og Mið-Austurlöndum en að jafnaði um eða undir sex tonnum í Afríku, Suður-Ameríku, Asíu, Eyjaálfu og Austur-Evrópu. Að sama skapi er framleiðslukostnaður mjólkurinnar afar ólíkur á milli heimshlutanna og er hann lægstur að jafnaði í þeim löndum þar sem afurðasemi kúa er lægst (30-35$/100 kg. orkuleiðréttrar mjólkur) en hæstur þar sem afurðasemin er meiri (47-53$). Áhugavert er þó að rýna í tölurnar og þar kemur fram að í bæði Norður-Ameríku og Vestur-Evrópu finnast kúabú þar sem framleiðslukostnaður mjólkurinnar er áþekkur framleiðslukostnaði í heiminum þar sem afurðasemin er lág. Frá árinu 2009 hefur framleiðslukostnaður hækkað í öllum heimshlutum nema Vestur-Evrópu þar sem hann hefur lækkað.
Fram kemur í skýringum IFCN að gögnin bendi til þess að mest áhrif á lágan framleiðslukostnað mjólkur hafi fóðrunarkerfi, tæknistig búa, bústærð og stjórnunarhæfni bændanna en að háar meðalafurðir einar og sér tryggi ekki lágan framleiðslukostnað/SS.