Mikill munur á afurðagetu ólíkra kúakynja
20.02.2012
Eftir því sem líður á árið 2012 koma fram upplýsingar um afurðasemi ólíkra kúakynja í löndunum í kringum okkur árið 2011. Nú liggja m.a. fyrir upplýsingar um afurðasemin í Danmörku árið 2011 og eru hinar svarskjöldóttu dönsku kýr (DH) sem fyrr afurðahæstar, en þær eiga ættir að rekja í hið þekkta Holstein Friesian kyn. Hinar svarskjöldóttu dönsku kýr mjólkuðu að meðaltali 9.392 kg (ekki orkuleiðrétt nyt). Þar á eftir koma svo hinar rauðu dönsku kýr (RDM eða VikingRed) með 8.570 kg að jafnaði.
Til fróðleiks hafa hér verið dregnar saman helstu niðurstöður hinna þriggja stóru dönsku kúakynja (DH, RDM og Jersey) í samanburði við íslenskar stöllur þeirra.
Kúakyn | Bústærð, árskýr | Fjöldi búa í uppgjöri | Meðalframleiðsla pr. árskú | Framleidd verðmætaefni (fita+prótein) pr. árskú | Hlutfall innveginnar mjólkur í afurðastöð |
Rauðar danskar kýr | 106,3 | 145 | 8.570 kg | 667 kg | 94,2% |
Danskar Holstein kýr | 146,6 | 1.504 | 9.392 kg | 701 kg | 94,5% |
Jersey kýr | 160,6 | 316 | 6.587 kg | 662 kg | 95,6% |
Íslenskar kýr | 38,5 | 598 | 5.436 kg | 412 kg | Ekki gefið upp |
Við samanburð sem þennan er jafnframt gagnlegt að skoða hvernig bestu búin standa sig innan hvers flokks og ef skoðaðar eru afurðirnar á 10 afurðahæstu búunum kemur eftirfarandi í ljós:
Bú með: | Vegin meðalnyt afurðahæstu búa, kg mjólkur pr. árskú | Þar af innlagt í afurðastöð | Vegin meðalframleiðsla verðmætaefna pr. árskú | Meðalfjöldi árskúa pr. bú |
Rauðar danskar kýr | 10.290 kg | 92,8% | 804 kg | 106,4 |
Danskar Holstein kýr | 12.816 kg | 93,8% | 942 kg | 230,4 |
Jersey kýr | 7.999 kg | Ekki gefið upp | 816 kg | 164,8 |
Íslenskar kýr | 7.678 kg | Ekki gefið upp | 592 kg | 32,8 |
Á næstu vikum munu svo liggja fyrir upplýsingar úr afurðaskýrsluhaldi hinna Norðurlandanna (SRB frá Svíþjóð, NRF frá Noregi og Ayrshire frá Finnlandi) og verður þeim gerð svipuð skil þegar þar að kemur/SS.