Beint í efni

Mikill meirihluti vill bann við innflutningi á hráu, ófrosnu kjöti

24.05.2013

Helmingur Íslendinga vill leggja mikla áherslu á að vernda íslenskan landbúnað, m.a. með innflutningstollum og 58,6% vilja að bannað sé að flytja inn hrátt, ófrosið kjöt, til landsins. Íbúar á landsbyggðinni eru almennt meðmæltari innflutningsbanni á hráu, ófrosnu kjöti en fólk á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í nýrri Capacent-könnun sem gerð var fyrir Bændasamtökin seinni hluta aprílmánaðar.

Þegar rýnt er nánar í niðurstöðurnar kemur í ljós að konur eru meðmæltari því að bannað sé að flytja inn hrátt kjöt en karlar. 68% kvenna segja það skipta miklu máli á meðan 51% karla vilja banna innflutning. Eftir því sem menntun eykst hefur fólk minni áhyggjur af innflutningi á kjöti. Þannig telja 46% að­spurðra með háskólapróf að það skipti máli að banna innflutning á erlendu hráu kjöti en 67% þeirra sem eru einungis með grunnskólapróf. Marktækur munur er á afstöðu fólks á landsbyggðinni og á höfuð­borgar­svæðinu. 73% landsbyggðarfólks vill banna innflutning á hráu ófrosnu kjöti en einungis 47% Reykvíkinga.

Hversu miklu eða litlu máli finnst
þér skipta að bannað sé að flytja
hrátt, ófrosið kjöt til landsins?


Helmingur landsmanna meðmæltur tollvernd
Spurt var um viðhorf til verndar á íslenskum landbúnaði, m.a. með innflutningstollum. Niðurstöður eru afgerandi og sýna mikinn stuðning við að verja innlendan landbúnað. 49,5% aðspurðra vilja leggja mikla áherslu á vernd, m.a. með innflutningstollum, en 30,1% telur að litla áherslu eigi að leggja á að vernda landbúnað eins og gert er. Fimmtungur svarenda svarar hvorki né. Athygli vekur að yngsta kynslóðin, á aldursbilinu 18-24 ára, er töluvert meðmæltari tollum en fólk á aldrinum 35-44 ára. 54% yngsta hópsins leggur mikla áherslu á að vernda landbúnað á meðan 42% þeirra sem eru á aldursbilinu 35-44 ára svara því sama. Mestur er stuðningurinn við verndun landbúnaðar, eða 59%, í aldurs­hópunum 55 ára og eldri.Landbúnaðurinn með sterka stöðu í hugum fólks
Í viðhorfskönnuninni var spurt um fleiri þætti sem tengjast landbúnaði. Svarendur eru almennt sammála um að landbúnað eigi að stunda á Íslandi til framtíðar en 92,3% segja að það skipti miklu máli. Þá er stór hluti á því að miklu máli skipti að Íslendingar séu ekki öðrum háðir um landbúnaðarafurðir, eða 75%. Einungis 10% segja að það skipti litlu máli.
Úrtak könnunarinnar var 1.400 manns af landinu öllu, 18 ára og eldri. Svarhlutfall var 67,3%.