Beint í efni

Mikill hugur í Vestfirskum kúabændum!

14.02.2005

Undanfarin misseri hafa reglulega borist fréttir af stórhuga kúabændum á Vestfjörðum. Þar eru nú 15 mjólkurframleiðendur og þar af eru þrír þeirra með mjaltaþjóna. Að sögn Árna Brynjólfssonar, bónda að Vöðlum í Önundarfirði og stjórnarformanns Mjólkursamlags Ísfirðinga, hefur uppbyggingin gengið vel og mikill hugur

sé í kúabændum. Þeir hafi keypt inn á samlagssvæðið rúmlega 200 þúsund lítra greiðslumarks, sem sé rúmlega 15% aukning fyrir afurðastöðina. Þrátt fyrir að Mjólkursamlag Ísfirðinga hafi nú um 1,4 milljónir lítra mjólkur til vinnslu á ári sé þó enn töluvert í land með að framleiðslan verði áþekk því sem áður var á svæðinu, en þegar mest var hafi framleiðslan numið um 1,7 milljónum lítra. Líta megi því á þessa aukningu nú sem ákveðna viðspyrnu við þróun síðustu ára.

 

Aðspurður sagði Árni að margir hefðu verið undrandi á þessum dug í þeim Vestfirðingum og hafi farið á flot ýmsar sögusagnir um aðkomu Byggðastofnunar og jafnvel fleiri aðila að kaupum Vestfirskra kúabænda á greiðslumarki mjólkur. Fyrir því sé hinsvegar enginn fótur og hafi enginn styrkt kúabændur á Vestfjörðum til greiðslumarkskaupa. Misskilningurinn stafi vafalítið af því að fyrir nokkrum árum hafi þeir leitað til Byggðastofnunar um stuðning, en því erindi var hafnað.