Beint í efni

Mikil hagræðing orðið hérlendis í mjólkurframleiðslu og mjólkuriðnaði síðustu ár.

26.11.2004

Í fréttum Ríkisútvarpsins i morgun var rætt við forstjóra Haga (sem rekur Bónus, Hagkaup og 10-11), Jón Björnsson, og hvað hann skýringar á háu matarverði fyrst og fremst að finna í dýru landbúnaðarkerfi, smáum markaði og háum virðisaukaskatti. Að gefnum tilefni vill Landssamband kúabænda taka fram að mikil hagræðing hefur átt sér stað í íslenskri mjólkurframleiðslu og mjólkuriðnaði undanfarin ár, sem hefur

m.a. skilað sér í verðstöðvun flestra mjólkurvara síðustu 2 ár. Þá er einnig rétt að benda á að íslenskar landbúnaðarvörur eru innan við helmingur þeirra matvara sem Íslendingar neyta samkv. uppl. frá Hagstofu Íslands og verð annarra matvara, bæði innfluttra og framleiddra hérlendis skiptir því verulegu máli í þessu sambandi.

 

Ef horft er til þess tímabils sem vísað var til í frétt RÚV (sl. fjögur ár), þá hefur samræmd vísitala mat- og drykkjarvöru (samkv. Hagstofu Íslands) hækkað um 11,1% en ekki staðið í stað eins og fullyrt var. Á sama tímabili hefur gengi dollars hinsvegar lækkað um 16,2% og gengi SDR (gjaldeyris-reiknieining sem yfirleitt er notuð við verðsamanburð á milli landa) lækkað um 5,2%, en gengi hefur veruleg áhrif á verð innfluttra vara hingað til lands.

 

Þegar tölur Hagstofu Íslands fyrir síðustu fjögur ár eru skoðaðar nánar kemur í ljós að á umræddu tímabili hefur launavísitala hækkað um 17,3%, en kjöt hækkað um 8,2% og mjólkurvörur og egg um 13,0%. Veruleg lækkun hefur jafnframt orðið á grænmeti, eða um 6,5%. Á sama tímabili hefur fiskur hækkað um 18,1%, brauð og kornvörur um 15,6% og sælgæti um 22,3%.

 

Eðlilegt er, vegna ofangreindra upplýsinga, að skýra frekar hvaða liðir vega þyngst í breytingum á vísitölu matar og drykkja sl. 4 ár. Eins og fram kemur í meðfylgjandi töflu hafa ýmsir liðir hækkað á síðustu fjórum árum um meira en 20%. Engar íslenskar landbúnaðarafurðir eru meðal þeirra vara.

 

Tafla: þróun verðs á undirvísitölum vísitölu neysluverðs sl. 4 ár (desember 2001 til nóvember 2004) samkv. uppl. af vef Hagastofu Íslands. 

Tegund vöru Áhrif á heild Breyting Helstu skýringar á breytingum
Brauð og kornvörur  16,8% +15,6%  Hrísgrjón (+26,8%), pasta (+34,7%) og sætabrauð (+28,3%)
Kjöt  19,5% +8,0% Nautgripakjöt (+15,1%) og fuglakjöt (+14,5%)
Fiskur  5,4% +18,1%

Saltaður og reyktur fiskur (+22,5%) og aðrar sjávarafurðir (+27,1%)

Mjólk, ostar og egg  18,1% +13,0% Egg (+19,5%), ostar (ath. innfluttir einnig) (+16,7%) og jógúrt (+16,3%)
Olíur og feitmeti  1,3% +8,9% Smjör (+16,2%)
Ávextir  4,0% -5,9% Ber (-24,2%) og appelsínur ofl. (-17,7%)
Grænmeti, kartöflur ofl.  6,7% -6,5% Kál (-24,3%), grænmeti (-19,1%) og sveppir ofl. (-15,9%). Niðursoðið grænmeti hinsvegar hækkað um 23%
Sykur, súkkulaði, sælgæti ofl.  10,7% +22,3%

Súkkulaði (+26,2%), ís (+20,9%) og sælgæti (+20,0%)

Aðrar matvörur  5,4% +16,0% Sósur ofl. (+20,3%) og krydd ofl. (+17,1%)
Kaffi, te og kakó  2,0% +4,2% Kakó (+25,4%) en kaffi lækkað um 3,1%
Gosdrykkir, safar og vatn  10,1% +11,8% Gosdrykkir (+10,3%) og ávaxtasafar (+16,2%)