Beint í efni

Mikil fækkun kúabúa hjá löndum Evrópusambandsins

05.09.2011

DairyCo, hagsmunafélag mjólkurframleiðenda í Stóra-Bretlandi, hefur nú gefið út skýrslu um stöðu mjólkurframleiðslu og –vinnslu árið 2010. Í skýrslunni koma fram margvíslegar gagnlegar upplýsingar um mjólkurframleiðsluna í Evrópusambandinu og að sjálfsögðu í Stóra-Bretlandi.

 

Þar kemur m.a. fram þróun á fjölda mjólkurframleiðenda í Evrópusambandinu. Frá 2009 til 2010 fækkaði þeim um 134.400 og voru í árslok 2010 1,2 milljónir! Í skýrslunni má sjá að undanfarin ár hefur mikil fækkun orðið á kúabúum innan landa ES og frá árinu 2005 til 2010 hafa að jafnaði 71 bú lagt upp laupana á hverjum einasta degi.
 
Í skýrslunni kemur jafnframt fram að fjöldi mjólkurkúa landa ES er nú 23,157 milljónir og heildarmjólkurframleiðslan 136,4 milljarðar lítra. Meðalbúið er því með í kringum 113 þúsund lítra framleiðslu og meðalnyt rétt undir 6 þúsund lítrum.

 

Í skýrslunni má jafnframt sjá að heildarframleiðsla mjólkur í heiminum árið 2009 er talin hafa numið 566,6 milljörðum lítra, þar af var framleiðsla landa ES 25,2%.

 

Áhugasamir geta lesið skýrsluna í heild sinni með því að hlaða henni niður (PDF-form) með því að smella hér/SS.