Mið-Ameríkuríki í mjólkurvörustríði
29.07.2016
Mið-Ameríkuríkin Costa Rica og Nicaragua eiga nú um stundir í undarlegu viðskiptastríði með mjólkurvörur! „Stríðið“ byrjaði í síðasta mánuði þegar yfirvöld í Costa Rica lokuðu á innflutning mjólkurvara frá fjórum afurðafyrirtækjum frá Nicaragua með þeim skýringum að útflutningspappírar mjólkurvaranna sem flytja átti inn til Costa Rica væru ekki í lagi. Í kjölfarið gerðist það svo að tollverðir í Nicaragua fundu eitthvað að innflutningspappríum frá afurðastöð í Costa Rica sem gerði það að verkum að 270 tonn af ostum, jógúrti og ís komust ekki í gegnum tollskoðun.
Með þessu svari Nicaragua vonast flestir til þess að staðan sé „jöfn“ og að nú geti á ný hafist eðlileg viðskipti á milli landanna. Í Nicaragua er þriðji stærsti neyslumarkaður mjólkurvara í Mið-Ameríku og er markaðurinn þar afar mikilvægur fyrir kúabændur í Costa Rica en þaðan voru flutt 6.600 tonn af mjólkurvörum til Nicaragua á síðasta ári/SS.