Beint í efni

Metnaðarfullt kynbótastarf í Írlandi

04.02.2016

Umsvifamesta rannsóknaverkefni í heimi, á sviði nútíma kynbóta, hefur nú verið hleypt af stokkunum í Írlandi, en ákveðið var að erfðaefnisgreina alla nautgripi í landinu í þeim tilgangi að hraða erfðaframförum verulega. Sem kunnugt eru erfðaefnisgreiningar lang hraðvirkasta kynbótaaðferðin sem þekkt er í dag en naut.is hefur margoft fjallað um þessar greiningar og möguleika þeirra. Hið metnaðarfulla írska verkefni er rekið af írsku nautgriparæktarsamtökunum ICBF (The Irish Cattle Breeding Federation) en alls verða tekin lífsýni úr einni milljón nautgripa á þessu ári og því næsta og árin 2018-2020 verða tekin sýni úr öðrum milljón gripum.

  

Sýnin verða svo öll send til Eurofins Genomics í Danmörku og greind þar, en með þeirri þekkingu sem til er í dag er hægt að greina 55 þúsund breytur í erfðaefni nautgripa. Hverjum grip verður því lýst all nákvæmlega og erfðaefnisröðin svo samtengd við ýmsar aðrar upplýsingar um viðkomandi grip eins og afurðir, útlit, ætterni, sjúkdómasögu osfrv. Hingað til hafa þessar erfðaefnisgreiningar einungis náð til valinna kynbótagripa en þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem heilt land er kortlagt með þessum hætti/SS.