Beint í efni

Metframleiðsla á síðasta verðlagsári – 126,3 milljónir lítra

18.09.2009

Innlögð mjólk á nýliðnu verðlagsári (1.9.2008-31.8.2009) var 126.339.040 lítrar og hefur hún ekki áður verið meiri á einu verðlagsári. Framleiðslan var tæplega 1,4 milljónum lítra meiri en á sama tímabili í fyrra. Bráðabirgðatölur benda til að innlögð mjólk umfram greiðslumark hafi verið 10,8 milljónir lítra. Á þeim búum sem ekki náðu að fylla greiðslumarkið hefur því samanlagt vantað 3,5 milljónir lítra uppá, þar sem greiðslumarkið var 119 milljónir lítra.

Salan á próteingrunni undanfarna 12 mánuði er 118 milljónir lítra, hefur aukist um 1,6% á tímabilinu. Sala á fitugrunni er tæplega 115 milljónir lítra og hefur aukist um 3,8%. Þess ber þó að geta að duftsala í júlí sl. var miklu meiri en venja er til, vegna hækkunar á því 1. ágúst sl.

 

Á myndinni má sjá þróunina í sölu á prótein- og fitugrunni á tímabilinu febrúar 2006 til ágúst 2009. Á þeim tíma hefur verulega dregið saman í sölu verðefnanna, í upphafi var munurinn 11,2 milljónir lítra en er nú kominn niður í 3,1 milljón lítra. Haldi þessi þróun áfram, verður komið á jafnvægi í sölu á próteini og fitu snemma á árinu 2011. Þar ber þó að setja fyrirvara um þróun mannfjölda, neyslubreytingar o.s.frv.