Beint í efni

Metframleiðsla á mjólk og mest selt af alifuglakjöti árið 2007

21.01.2008

Bráðabirgðatölur um framleiðslu og sölu búvara fyrir árið 2007 liggja nú fyrir. Framleiðsla mjólkur varð 124.849.835 lítrar sem er það mesta sem skráð hefur verið á einu ári hingað til. Sala miðað við próteininnihald nam 114.881.128 lítrum (1,48% aukning frá árinu 2007) og á fitugrunni 108.696.042 (4,65% aukning frá fyrra ári). Þegar litið er á breytingar í einstökum vöruflokkum milli ára þá dróst sala á drykkjarmjólk saman um 0,55% (í lítrum) og skyri um 11,69% (í kg). Sala á viðbiti jókst hins vegar um 6,73 (í kg) og ostum um 5,66% (í kg).

7% aukning í kjötframleiðslu
Framleiðsla á kjöti jókst alls um 7% á árinu og nam alls 26.864 tonnum. Mest jókst framleiðsla á alifuglakjöti, um 14,2% og rösklega 11% á hrossa- og nautgripakjöti. Framleiðsla svínakjöts jókst um 6% en kindakjötsframleiðslan var óbreytt frá fyrra ári.

Heildarkjötsala jókst um rúm 6%
Heildarsala á kjöti árið 2007 jókst um 6,3% frá fyrra ári og nam 24.693 tonnum. Mest seldist af alifuglakjöti 7.457 tonn og er það í fyrsta skipti sem meiri sala er á annarri kjöttegund en kindakjöti, á ársgrundvelli. Mynd 1 í fylgiskjali sýnir breytingar milli ára eftir kjöttegundum.

Sala á íbúa eykst
Sala á kjöts á íbúa nam 79,5 kg en var 76,3 kg/íbúa árið 2006. Aukningin nemur því rétt rúmum 4%. Mynd 2 sýnir breytingar milli ára á sölu á íbúa eftir kjöttegundum.

Mest selt af alifuglakjöti
Kindakjöt og alifuglakjöt hafa haft sætaskipti á toppnum þegar reiknuð er út hlutfallsleg skipting kjötmarkaðarins milli ára. Svínakjötið heldur nær óbreyttri stöðu en aukin framleiðsla og sala á nautakjöti skila meiri sölu á íbúa og aukningu á hlutdeild í heildarkjötmarkaðnum. Sjá mynd 3 í fylgiskjali.

Innflutningur á kjöti nam 865 tonnum árið 2007
Heildarinnflutningur á kjöti frá janúar til nóvember 2007 nam 865 tonnum. Í töflu 1. má sjá hvernig innflutningurinn skiptist eftir kjöttegundum.

Fylgiskjal - myndir - framleiðsla og sala 2007 - pdf