Beint í efni

Metfjöldi fylgdist með kúm sletta úr klaufum

23.04.2012

Undanfarin ár hafa samtök bænda sem stunda lífræna búskaparhætti í Danmörku staðið fyrir „Lífrænum degi“ (d. Økodag) á þeim sunnudegi sem næstur er 20. apríl. Þetta árið var hann haldinn sunnudaginn 22. apríl, í gær. Klukkan nákvæmlega 12 á hádegi var kúnum á 68 kúabúum hleypt út eftir vetrarlanga innistöðu. Hvorki meira né minna en 141.000 gestir mættu til að fylgjast með kúnum sletta úr klaufum, sem er met. Þar af mættu 10.000 manns, flestir af höfuðborgarsvæðinu, á búið Stensbølgård í Kirke Hyllinge á Sjálandi til að sjá þegar kýrnar á bænum, 120 talsins, fögnuðu vorkomunni. Birgitte Nygaard, verkefnisstjóri hjá samtökum lífrænna bænda segir að „í dag sé svo komið að fáir af yngri kynslóðinni hafi nokkur tengsl við landbúnaðinn. Á Lífræna deginum fái þau möguleika á að komast í færi við lífið í sveitinni, fræðast um búskaparhættina og að snerta, lykta, sjá og smakka á því sem þeir bjóða upp á“.

 

Lífræni dagurinn er haldinn í samstarfi samtaka lífrænna bænda, og mjólkurbúanna Naturmælk, Thise, Arla, Øllingegaard, Osted og Them.

 

www.landbrugsavisen.dk