Beint í efni

Metár í framleiðslu á lífrænni mjólk

16.05.2011

Það er mikill munur á milli landanna í Evrópu þegar horft er til framleiðslu á lífrænt vottaðri mjólk. Á meðan eftirspurn á markaðinum hér á landi virðist vera takmörkuð, er eftirspurnin mikil í sumum öðrum löndum. Þannig var árið 2010 metár í Evrópu þegar horft er til framleiðslu kúabúa á lífrænni mjólk.

 

Átta stærstu framleiðslulönd lífrænt vottaðrar mjólkur í Evrópu framleiddu 2,75 milljarða lítra árið 2010 sem er rúmlega tuttugu og tvöföld heildarframleiðsla allrar mjólkur hér á landi sama ár!
 

Mest framleiðsla var í Þýskalandi, þar sem framleiðslan nam 595 milljónum lítra af lífrænt vottaðri mjólk. Í öðru sæti var framleiðsla frá dönskum kúabúum með 475 milljónir lítra en vert er að geta þess að stór hluti þeirrar mjólkur fer til útflutnings.

 

Mest aukning í framleiðslu árið 2010 varð hinsvegar í Svíþjóð og endaði innvegið magn þar í 259 milljón lítrum og var það aukning um 13,7% frá árinu 2009. Framleiðsla lífrænnar mjólkur á Íslandi var undir 1 milljón lítrum árið 2010.
 

Hér má sjá framleiðslutölur lífrænnar mjólkur átta mestu framleiðslulandanna (innvegið í milljónum lítra):
Þýskaland: 595
Danmörk: 475
Stóra-Bretland: 400
Austurríki: 381
Frakkland: 281
Svíþjóð: 259
Sviss: 214
Holland: 142

/SS