Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Meta vinnubrögð og gæði mjalta með tölvum!

26.01.2013

Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Þekkingarsetur landbúnaðarsins í Danmörku (VFL) hafa nú sett af stað samstarfsverkefni í tengslum við mjaltir og mjaltatækni en verkefnið er styrkt af Þróunarsjóði nautgriparæktar. Tilgangur verkefnisins er að mæla og meta gæði mjalta og leiðbeina bændum til betri vegar, sé þörf á því, út frá mælingum og mati á vinnubrögðum. Um leið að kynna fyrir íslenskum bændum og mjólkurgæðaráðgjöfum þær aðferðir sem notaðar eru í Danmörku við mjólkurgæðaráðgjöf í tengslum við mjaltir og mjólkurgæði.

 
Verkefnið byggir á rauntímamælingum og úttektum á gæðum mjalta á nokkrum völdum kúabúum og munu mælingarnar fara fram dagana 12.-14. mars nk. Notaðir verða sérhæfðir tölvumælar til þess að mæla gæði mjalta, flæði mjólkur, sogflökt í mjólkurlögn, undirþrýsting við spenaenda og undirþrýsting í kraga spenagúmmís. Þessi aðferð er þekkt við mjólkurgæðaráðgjöf í Danmörku og Noregi og er nýlega hafin notkun á þessari aðferð einnig í Svíþjóð. Tilgangurinn er að vakta mjaltirnar og leggja mat á hvort kýrnar leggi niður mjólk með jöfnum og eðlilegum hætti og um leið að mæla hvort allt mjaltakerfið virki eins og það á að gera og sé rétt hannað.

 
Jafnframt verða vinnubrögð við mjaltir metin og gerð úttekt á aðbúnaði kúnna með það að leiðarljósi að benda á þætti sem bæta má í þeim tilgangi að fá fram bætt mjólkurgæði, betri vinnubrögð við mjaltir og til lengri tíma litið bætta framlegð kúabúsins. Þessi aðferð sem að framan greinir er þekkt við ráðgjöf og leiðbeiningar í Danmörku og Noregi en ekki hér á landi. Um er því að ræða afar áhugaverða leið við ráðgjöf sem mun gera SAM mögulegt í framtíðinni að útvíkka þá ráðgjöf sem kúabændum á Íslandi stendur til boða nú þegar.

 
Óskað verður eftir þátttöku níu kúabúa í þetta verkefni en ávinningur bændanna felst í því að fá nákvæmar mælingar á gæðum mjalta og um leið úttekt á vinnubrögðum við mjaltir og aðrar gegningar sem unnar eru á úttektartímanum.Gert er ráð fyrir að hvert kúabú greiði kr. 20.000 fyrir hverja heimsókn en þeir bændur sem taka þátt í verkefninu fá svo senda skýrslu um sem byggir á niðurstöðum mælinganna og úttektanna ásamt ábendingum um það sem bæta má.

 
Þeir sem kunna að hafa áhuga á því að taka þátt í þessu verkefni eru beðnir að hafa samband við ráðgjafa SAM: Steinþór Guðjónsson, Kristján Gunnarsson eða Hans Egilsson hjá SAM. Tekið skal fram að þar sem einungis níu kúabú geta tekið þátt í þessu verkefni að þessu sinni, getur verið að ekki verði unnt að heimsækja alla sem eftir því óska/SS.