Beint í efni

Met í innvigtun mjólkur!

09.11.2010

Fonterra, framleiðendasamvinnufélag nýsjálensku kúabændanna, setti skemmtilegt met í lok október sl. þegar félagið vigtaði inn mesta magn mjólkur á einum degi frá upphafi!  Alls var innvegin mjólk þann 27. október 76,8 milljónir lítra til 26 móttökustöðva félagsins víða á Nýja-Sjálandi. Síðasta met var sett í fyrra og var það heilum þremur milljónum lítrum minna eða 73,8 milljónir lítra. Í raun leit ekki út fyrir að met yrði sett í ár enda hefur rignt mikið á Waikato og Taranaki svæðinu auk þess sem snjóað hefur meira en oft áður á Suður-Eyju. Undanfarið hefur þó viðrað

vel á þessum slóðum og hafa kýrnar tekið heldur betur við sér í framleiðslunni.

 

Lesendur kunna að velta því fyrir sér hvernig í ósköpunum sé hægt að taka við jafn miklu magni á einum degi og raun ber vitni um, en svarið við því er meðal annars ED4. ED4 er stærsta og lang fullkomnasta mjólkurduftsverksmiðja í heimi, staðsett í Edendale á Nýja Sjálandi og hún er auðvitað í eigu Fonterra. Verksmiðjan framleiðir 27 tonn af mjólkurdufti á hverjum klukkutíma eða um 650 tonn á sólarhring.