
Mestu þurrkar í 100 ár
21.07.2003
Í Ástralíu hafa nú miklir þurrkar herjað á land það sem af er vetri (vetur í Ástralíu nú) og hefur jafn mikill hiti og þurrkar ekki verið á þessum tíma í yfir 100 ár. Þrátt fyrir að „hávetur“ sé núna í Ástralíu, er hitastigið um 22°C en venja er að á þessum tíma sé hitastigið 9-12°C. Samkvæmt upplýsingum frá landbúnaðarfélögum í Ástralíu mun hitastigið næsta mánuðinn skera úr um framtíðarhorfurnar í landbúnaðinum.
Framleiðslan minnkað verulega
Í fylkinu New South Wales hafa þurrkarnir bitnað illa á búfé og hefur sauðfé fækkað á svæðinu niður í 71% af venjulegum fjölda. Þá hefur nautgripum fækkað niður í 75% og jafnframt var einungis sáð í 66% af hveitiökrum fylkisins. Þá hafa mörg önnur fylki orðið illa úti s.s. Quensland og Victoria, þar sem 48 af 59 sýslum hafa verið lýstar 100% þurrkasvæði.
Þrátt fyrir gríðarlega mikla þurrka, eru þurrkarnir í ár ekki eins alvarlegir og síðasta ár, þegar svo til ekkert rigndi frá mars 2002 til febrúar 2003.
Bændur sem stóluðu á auknar tekjur á þessu ári eftir þurrkana miklu í fyrra, sjá því enn fram á tap og staða þeirra því orðin alvarleg. Landbúnaðarframleiðslan hefur á þessum tíma minnkað um 28,6% í Ástralíu, sem hefur jafnframt haft áhrif á þjóðarframleiðsluna en hún hefur dregist saman um 0,75% vegna þessa.