Beint í efni

Mesta hækkun heimsmarkaðsverðsins í hálft ár

17.01.2018

 

Í gær var haldið uppboð á mjólkurvörum hjá GDT (Global Dairy Trade) og hækkaði meðalverð mjólkurvara um 4,9% sem er mesta einstaka hækkunin á þessum verðmyndandi markaði í hálft ár. Á þessu uppboði var það smjör sem tók enn eitt risastökkið upp á við og hækkaði það um 8,8% frá því á síðasta uppboði sem var í byrjun mánaðarins. Annars varð heilt yfir hækkun á öllum tegundum sem í boði voru en mest viðskipti voru með mjólkurduft sem hækkaði um 5,1% og fást nú 3.010 dollarar fyrir tonnið af því.

Í heildina var á þessum markaði verslað með 23 þúsund tonn og nam meðalverð viðskiptanna 3.310 dollurum á tonnið. Verðstuðull heimsmarkaðsverðsins er nú 1.002 stig sem er áþekkt gengi og var í nóvember á síðasta ári og svipað og það var einnig í ársbyrjun 2017. Til þess að fræðast nánar um uppboðið má smella hér/SS