Merkja kjöt með fituinnihaldi en ekki hormónainnihaldi!
11.01.2011
Matvælastofnun Bandaríkjanna (FSIS) hefur nú birt nýja áætlun um hvernig stoppa megi offitufaraldurinn þar í landi en ríkisstjórnin hefur sett það sem eitt af sínum markmiðum. Ein af leiðunum er að gefa neytendum betri upplýsingar um matvörurnar og vegna þessa skal nú allt kjöt merkjast með upplýsingum um næringarefnainnihald. Þessi ákvörðun gildir um bæði steikur, hakk og unnar kjötvörur svo að í
framtíðinni geta neytendur lesið sér til um næringarefnin í kjöti rétt eins og í kexi!
Merkingarnar eiga að gefa upplýsingar um kaloríu- og fituinnihald auk þess sem gerðir fitunnar eiga að koma fram, sem og kólesteról. Þá þurfa einnig að koma fram á merkingunum upplýsingar um prótein og vítamín. Hinum nýju reglum er ætlað að gera neytendunum mögulegt að taka upplýsta ákvörðun um kjötkaup sín og kaupa þannig hollari vörur ef þeir hafa á annað borð áhuga á því. Athygli vekur að engar tilraunir verða gerðar til þess að upplýsa neytendur um hormónainnihald kjötsins, en eins og kunnugt er eru hinir umdeildu vaxtarhormónar leyfðir við nautakjötsframleiðslu í Bandaríkjunum.