Mengað mysuduft hjá Fonterra
06.08.2013
Þriðja ágúst sendi hið nýsjálenska Fonterra frá sér tilkynningu um að mysupróteinduft, sem framleitt var í einni afurðastöð félagsins Waikato fyrr á árinu, gæti innihaldið dvalargró Clostridium Botulinium sýkilsins sem veldur bótúlisma hjá fólki (öndunarerfiðleikar, sjóntruflanir og jafnvel lömun).
Félagið innkallaði um 1.000 tonn af mysudufti og vörum sem unnar höfðu verið úr duftinu en mysuduft er m.a. notað í ungbarnamjólkurduft, orkudrykki ofl. Er von manna að tekist hafi að koma í veg fyrir sýkingar hjá fólki, en í fréttatilkynningu félagsins segir að enn hafi amk. ekki borist neinar fregnir um slíkt.
Málið er grafalvarlegt fyrir kúabændur og almenning í Nýja-Sjálandi enda hin sterka gæðaímynd Fonterra beðið alvarlega hnekki vegna þessa. Útflutningur mjólkurvara skiptir efnahag landsins afar miklu máli og því er þetta um leið áfall fyrir landið sjálft.
Viðbrögð umheimsins við þessu eru nokkuð ólík. Rússland lokaði t.d. með öllu á innflutning mjólkurvara frá fyrirtækinu, einnig á vörum sem ekki innihalda umrætt mysuduft, en kínversk yfirvöld hafa lokað á innflutning frá Fonterra á vörum sem innihalda mysuduft/SS.