Beint í efni

Meistaraprófsfyrirlestur við auðlindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands

27.05.2008

Meistaraprófsfyrirlestur Elinar Nolsøe Grethardsdóttur fer fram á Hvanneyri fimmtudaginn 29. maí kl 14:00 í Ársal, 3. hæð í Ásgarði. Heiti verkefnisins er „Mat á erfðastuðlum fyrir flæðihraða mjólkur við mjaltir í íslenska kúastofninum“.

Prófdómari er Dr. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, Matvælastofnun. Aðalleiðbeinandi er Dr. Magnús B. Jónsson, prófessor við Landbúnaðarháskóla Íslands og meðleiðbeinandi Dr. Jón Viðar Jónmundsson sauðfjárræktarráðunautur Bændasamtaka Íslands. Bændum og öðrum áhugamönnum um nautgriparækt er velkomið að mæta og hlýða á fyrirlesturinn.
 

Markmið rannsóknarinnar var að meta flæðihraða mjólkur við mjaltir hjá íslenskum mjólkurkúm. Enn fremur að meta breytileika mjaltaeiginleikans og arfgengi og athuga hvort hægt sé að nota upplýsingar úr mjaltakerfunum sem beinar mælingar í kynbótamati. Erfðafylgni á milli eiginleikanna málnyt, mjaltatími, hámarksflæði og meðalflæði var einnig skoðuð.

 

Gagnasöfnun hófst vorið 2005 og henni lauk sumarið 2006. Notuð voru gögn frá 49 búum með tölvustýrð mjaltakerfi frá framleiðendunum DeLaval® og SAC®. Frá bæjunum var safnað upplýsingum um kýrnúmer, skýrsluhaldsnúmer á bænum, nyt við síðustu mjaltir, hámarkshraða kg/mín, meðalhraða kg/mín, mjaltatíma mín:sek, hvort upplýsingarnar voru frá kvöld- eða morgunmjöltum og svo dagsetningu á mjöltunum. Upplýsingar um burði og ætterni kúnna fengust frá Bændasamtökum Íslands.

 

Í gagnasafni eru 3.630 mælingar frá mjaltabásabæjum, en 111 mælingar voru frá kúm með ófullnægjandi ætternisupplýsingar eða burðarupplýsingar. Því byggist gagnasafnið á 3.519 mælingum. Sumar kýr eru með tvær og þrjár mælingar, alls eru 2.368 kýr í gagnasafninu. Í því eru 1.307 mælingar fyrsta kálfs kvígna, 938 mælingar frá kúm sem hafa borið tvisvar, 552 frá kúm sem hafa borið þrisvar og 722 mælingar frá kúm sem borið hafa oftar, þar af 7 mælingar frá kúm sem borið hafa níu sinnum.

 

Mesti hámarksflæðihraðinn var 6,8 kg/mín en lægsti var 0,7 kg/mín, meðaltal hámarksflæðis var 2,73 kg/mín og staðalfrávik þess 0,9 kg/mín. Hæsta meðalflæði var 4,9 kg/mín og lægsta var 0,2 kg/mín, meðaltal þessa eiginleika var 1,74 kg/mín og staðalfrávikið 0,62 kg/mín. Lengsti mjaltatími var 26 mínútur og 18 sekúndur, sá stysti var 49 sekúndur og að jafnaði voru kýrnar 5 mínútur og 42 sekúndur í mjöltum og staðalfrávikið 2,42 mínútur. Það er því ljóst að breytileiki í mjaltaeiginleikum er mjög mikill.

 

Erfðastuðlar voru metnir með aðferð sennilegustu frávika, REML (Restricted Maximum Likelihood), á grunni fjölbreytugreiningar (General Mixed Model). Arfgengi á hámarksflæði reyndist vera 0,44 ±0,06, á meðalflæði var það 0,36 ±0,05 og 0,30 ±0,05 á mjaltatímanum. Erfðafylgni milli meðalflæðis og hámarksflæðis var 0,99 ±0,01.

 

Þrátt fyrir að gögnin væru einungis frá 49 búum töldu dætrahópar undan þeim nautum sem voru að koma til afkvæmadóms um þær mundir er gögnum var safnað, á bilinu 10-20 einstaklinga. Það er því ljóst að með því að nota gögn frá öllum búum með tölvustýrð mjaltakerfi er auðvelt að fá viðunandi stærð á dætrahópum, verði tekin ákvörðun um að nota þessi gögn til kynbóta á mjaltaeiginleikum íslensku kúnna. Þar er ekki eftir neinu að bíða að koma hámarksflæði inn í ræktunarmarkmiðið.