Beint í efni

Meistarakokkar styðja breska kúabændur

24.07.2012

Bresku sjónvarpskokkarnir Hugh Fearnley-Whittingstall og Jamie Oliver skrifuðu í síðustu viku áskorun til neytenda í breska stórblaðið The Times. Í bréfi þeirra hvetja þeir til þess að neytendur sniðgangi verslanir sem selji mjólk undir kostnaðarverði. Fordæma þeir slík vinnubrögð sem til þess eins eru fallin að grafa undan breskri mjólkurframleiðslu.
 
”Það er orðið tímabært að stóru verslunarkeðjurnar hætti að selja mjólk undir kostnaðarverði. Ef keðjurnar gera ekkert sjálfar í þessum málum, þá ættu neytendur landsins etv. að færa innkaup sín frá þeim sem selja mjólkina á afsláttarverði, til þeirra sem greiða kúabændum sanngjarnt verð fyrir mjólkina”, segir í áskorun þeirra. Þá benda þeir jafnframt á fáránleika þess að verð á vatni í flöskum sé dýrara en mjólk.
 
Alla síðustu viku hafa staðið yfir mótmæli kúabænda við helstu stórmarkaði vegna boðaðra lækkunar á afurðastöðvaverði 1. ágúst nk. Þá hafa samtök bænda harðlega mótmælt þessum áformum einnig og hvatt til þess að hætt verði við boðaða lækkun/SS.