Beint í efni

Meðhöndlun, geymsla og dreifing á tilbúnum áburði

27.02.2008

Það er til lítis að vanda til verka við áburðarinnkaup og gerð áburðaráætlana ef kastað er til hendinni við dreifingu áburðar. Með markvissum og skipulögðum vinnubrögðum, allt frá móttöku áburðar þar til áburðurinn hefur verið borinn á, má spara fjármuni. Hér á eftir fara nokkur atriði sem vert er að hafa í huga.

Vönduð geymsla

Mikilvægt er að vanda vel til verka við geymslu á áburði. Þegar tekið er á móti áburðinum þarf að ganga úr skuggum um að móttekið áburðarmagn sé í samræmi við pantað magn. Æskilegt er að geyma áburðinn innandyra, en sé þess ekki kostur er gott að setja vörubretti undir sekkina og breiða síðan yfir stæðuna. Mjög mikilvægt er að þannig sé gengið frá hönkum sekkjana að ekki sé hætta á því að þeir sveiflist til í vindi.

Rétt tenging áburðardreifara
Áður en hafist er handa við áburðardreifingu þarf að tryggja það að áburðardreifarinn virki sem skyldi. Þegar dreifarinn er tengdur við dráttarvélina er brýnt að hann sé stilltur í samræmi við leiðbeiningar frá framleiðanda. Rétt hæðarstilling og halli hefur afgerandi áhrif á dreifigæðin.

Vandaðar stillingar
Magnstilling áburðardreifarans er lykilatriði þegar kemur að vandvirkni við áburðardreifingu. Gæta verður að því að hafa réttan hraða á tengidrifi og ekki síður að halda jöfnum aksturshraða. Upplýsingar um magnstillingar á áburðardreifara eiga að liggja fyrir hjá framleiðanda eða söluaðila hér á landi. Til að hámarka nýtingu áburðar og ekki síður ræktunarlands er æskilegt að áburðardreifarinn sé með búnaði til jaðardreifingar. Á hverju ári ætti skilyrðislaust að mæla dreifieiginleika áburðardreifarans með bakkaprófi og jafnframt gera rennslismælingar til þess að meta magnstillingar.

Fagleg vinna við áburðardreifingu
Þegar hafist er handa við áburðardreifingu er mikilvægt að þekkja lögun dreifikúrfunnar og haga skörun umferða eftir því. Á breiðari spilldum þarf að leggja út merkingar til þess að dreifingin verið sem jöfnust. Þá þurfa allar upplýsingar um áburðarmagn á hverja spilldu að vera með í dráttarvélinni. Gott er að skrá hjá sér ökuhraða og stillingu dreifara og þannig nýta þær upplýsingar til framtíðar.

//Unnsteinn Snorri Snorrason, uss@bondi.is