Beint í efni

Meðhöndla mjólk með útfjólubláu ljósi

01.03.2016

Árið 2012 sótti breska fyrirtækið Dairy Crest um heimild til þess að fá að markaðssetja mjólk sem hafði verið meðhöndluð með útfjólubláu ljósi af sk. C gerð, en það er útfjólublátt ljós með mjög stutta bylgjulengd. Slíkt ljós hefur sýnt sig að vera mjög virkt til þess að drepa margskonar gerla og því títt notað í matvælaiðnaði. Dairy Crest hefur sýnt fram á að lengja megi líftíma hefðbundinnar gerilsneyddrar mjólkur úr u.þ.b. 12 dögum í 21 dag með því að nota útfjólublátt ljós við pökkun hinnar gerilsneyddu mjólkurinnar.

 

Í byrjun ársins skilaði matvælaöryggisstofnunin EFSA (European Food Safety Authority) áliti sínu og hefur fyrir sitt leiti heimilað sölu á mjólk sem hefur verið meðhöndluð með útfjólubláu ljósi. Slíka mjólk má þó ekki selja börnum yngri en eins árs segir í áliti EFSA sem má lesa í heild sinni með því að smella hér. Rannsóknir Dairy Crest hafa sýnt að meðhöndlun mjólkur með útfjólubláu ljósi hefur engin skaðleg áhrif á næringarefni mjólkurinnar en hlutfall af D-3 vítamíni eykst í mjólkinni við meðhöndlunina/SS.