Beint í efni

Meðhöndla júgurbólgu með D-vítamíni

09.07.2012

Bandarískir vísindamenn á vegum USDA hafa á undanförnum misserum unnið að rannsókn á áhrifum D-vítamíngjafar á tíðni og útbreiðslu júgurbólgu, en miklum tíma vísindamanna er varið til júgurbólgurannsókna enda er kostnaður þarlendra bænda vegna júgurbólgutilfella talinn nema 2 milljörðum bandaríkjadollara árlega (u.þ.b. 250 milljarðar íkr). Vísindamenn við ARS (Agricultural Research Service) í Ames í Iowafylki hafa nú komist að því að mögulega er hægt að nota D-vítamín í staðinn fyrir hefðbundin lyf gegn júgurbólgu.

 
Það var sameindalíffræðingurinn John Lippolis (á meðfylgjandi mynd) sem uppgötvaði virkni D-vítamínsins en um gríðarlega þýðingarmikla uppgötvun er að ræða. Tíminn á þó eftir að leiða í ljós hve handhægt það er að nýta D-vítamínið í þessum tilgangi. John notaði náttúrulegt form af D-vítamíni (prehormone 25-hydroxyvitamin D) til þess að takast á við hefðbundna Streptókokka Úberis sýkingu með all góðum árangri.

 

Framangreint form vítamínsins er til staðar í blóði mjólkurkúa en í afar litlu magni í mjólk. Kýrnar voru sprautaðar, í gegnum spena, með þessu D-vítamíni beint í viðkomandi sýkta júgurhluta og svo var lagt mat á árangur meðferðarinnar í kjölfarið s.s. með frumutölutalningu, mjólkurframleiðslu og fleiri sjúkdómseinkennum Úberis sýkinga.  Niðurstöðurnar sýndu marktækan mun á milli kúa sem fengu D-vítamín meðhöndlun og þeirra kúa sem ekki voru meðhöndlaðar/SS.