Meðalnyt hækkað mikið í Stóra-Bretlandi
23.05.2011
Nú liggja fyrir fyrstu tölur um ætlaða meðalnyt í Stóra-Bretlandi árið 2010 og stefnir í að árið komi afar vel út hvað afurðir snertir. Meðalafurðirnar enduðu í 7.406 lítrum/kú sem er aukning frá fyrra ári um heil 4,7%. Hluti skýringarinnar á þessari miklu aukningu felst í umhverfisáhrifum en kjölfar efnahagslægðarinnar dró úr aukningu í meðalafurðum, líklega vegna lækkunar á fóðurstyrk í fóðri kúa en þess má þó geta að alla jafna er t.d. notkun á kjarnfóðri afar lítil í þessum löndum.
Meðalafurðirnar sl. ár jukust um 331 lítra/kú sem er næst mesta aukning í afurðum á milli ára sl. 15 ár en mesta mælda afurðaaukningin varð árið 2001 þegar meðalafurðirnar jukust um heil 6,6% frá árinu 2000.
Á sama tíma hefur heildarframleiðsla mjólkur einnig aukist mikið en framleiðslan hafði minnkað jafnt og þétt frá árinu 2003 þegar hún fór í 14.492 milljónir lítra. Árið 2009 var heildarframleiðslan komin niður í 13.164 milljónir lítra en jókst svo verulega árið 2010 og endaði árið í 13.683 milljón lítrum. Aukningin á þessu eina ári varð því 519 milljónir lítra/SS.