
Meðalnyt aldrei verið hærri
24.01.2018
Meðalnyt kúa mældist 6.159 kg að meðaltali árið 2017. Það er afurðaaukning um 30 kg frá árinu 2016 en þá var meðalnyt upp á 6.129 kg. Eru þetta mestu meðalafurðir frá upphafi og annað árið í röð sem þær ná yfir 6.000 kg eftir árskú. Þessi afurðaaukning er mjög athyglisverð í ljósi þess að nú eru allir mjólkurframleiðendur í skýrsluhaldi og árskúm fjölgaði milli ára um nálægt 1.350 talsins, einkum vegna þess. Þetta kemur fram í frétt á vef Ráðgjafamiðstöðvar landbúnaðarins um ársuppgjör afurðaskýrsluhaldsins í mjólkurframleiðslu 2017. Alls skiluðu 581 framleiðandi upplýsingum um afurðir sinna kúa fyrir árið 2017 en árið 2016 voru þeir 575.
Meðalbúið framleiðir 5% meira
Meðalbúið stækkaði milli ára enda jókst innlegg mjólkur milli ára og innleggjendum fækkaði heldur. Meðalinnlegg á bú með innlegg allt árið nam 262.961 lítrum samanborið við 250.182 lítra á árinu 2016. Þetta er aukning upp á rúm 5%. Á sama tíma fækkaði innleggjendum mjólkur um sjö og voru kúabú í framleiðslu 573 talsins nú um áramótin. Stærst voru búin í Eyjafirði með 55,1 árskýr, en minnst í Vestur-Skaftafellssýslu með 28,0 árskýr.
Mestar meðalafurðir árið 2017 voru í Skagafirði eða 6.537 kg eftir árskú. Skammt undan er Eyjafjörður með 6.452 kg á árskú. Þriðja sæti verma Austfirðingar en þar skilaði árskýrin að meðaltali 6.412 kg.
Nythæsta kýrin setti nýtt Íslandsmet
Nythæsta kýrin á landinu árið 2017 mjólkaði 14.199 kg með 3,64% fitu og 3,33% prótein og sló þar með ársgamalt Íslandsmet Nínu 676 á Brúsastöðum í Vatnsdal sem var 13.833 kg.
Alls skiluðu 77 kýr afurðum yfir 11.000 kg og þar af 27 yfir 12.000 kg. Árið 2016 náði 71 kýr nyt yfir 11.000 kg.
Þátttaka í skýrsluhaldi 100%
Á árinu 2017 tók gildi sú breyting að afurðaskýrsluhald er nú skilyrði fyrir greiðslum samkvæmt samningi um starfskilyrði í nautgriparækt. Þetta þýðir að skýrsluhald er skylda fyrir alla framleiðendur mjólkur og nautakjöts, ef bændur vilja halda gripa- og beingreiðslum. Vegna þessa er þátttaka í skýrsluhaldi nú í fyrsta skipti í sögunni 100% sem má ætla að hafi ekki nokkurn tímann átt sér stað í nokkru öðru landi í heiminum.
Sjá nánar: