Beint í efni

Meðalkúabúið árið 2011 með þrjár kýr

29.11.2011

Árlega gefa samtökin IFCN (International Farm Comparison Network) út áhugavert efni um mjólkurframleiðslu í heiminum (bæði kúa- og buffalómjólk) og nýverið birtist á heimasíðu samtakanna  (www.ifcnnetwork.org) skýrsla fyrir árið 2011. Alls söfnuðu samtökin framleiðsluupplýsingum í 90 löndum um 98% mjólkurframleiðslu heimsins. Þar kemur fram að meðalfjöldi kúa á hverju búi eru einungis þrjár kýr sem skýrist af því að gríðarlegur fjöldi búa eru með 1-2 kýr í þróunarlöndunum. Á hinn bóginn eru aðeins 11 af 90 löndum með fleiri en 100 kýr að meðaltali pr. bú.

 

Þar sem nokkur munur er á gæðum upplýsinga um bústærðir á milli landanna, nýttu samtökin upplýsingar 78 landa og flokkuðu niður búin og þá kom í ljós að 78% búanna eru með 1-10 kýr og 56% kúnna eru á þessum búum. Mestur hluti þeirrar mjólkur sem framleidd er á þessum búum fer til einkaneyslu en einhver hluti fer þó á markað. 22% búa heimsins eru með 10-100 kýr og á þeim eru 28% kúnna. Einungis 0,3% búanna eru með fleiri en 100 kýr en 16% kúnna eru þó á þessum búum/SS.