Beint í efni

Meðalbúið stefnir í 40 árskýr á árinu

28.01.2011

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir árið 2010 eru nú komnar út hjá BÍ, all nokkuð síðar en venja er. Samkv. upplýsingum landsráðunautanna er það vegna þess að skýrsluhaldsbændurnir gátu gert lokaleiðréttingar vegna ársins og tók það eðlilega tíma. Alls komu 607 bú til uppgjörs þetta árið en árið 2009 voru þau 614 og fækkar þannig skýrsluhaldsbúunum um 1,1% á milli ára. Þá voru skýrslufærðar 23.448,1 árskýr árið 2010, sem er fækkun um 418,2 árskýr frá fyrra ári eða sem nemur 1,8%.

 

Þrátt fyrir fækkun kúa heldur meðalbúið áfram að stækka og er nú 38,6 árskýr en árið 2009 var

meðalbúið með 37,1 árskú sem er stækkun um heil 4,0%! Haldist sama þróun á þessu ári verður meðalbúið komið yfir 40 árskýr á þessu ári.

 

Þegar horft er til meðalafurðanna er niðurstaðan veruleg vonbrigði og lækka meðalafurðirnar þriðja árið í röð. Meðalafurðirnar árið 2010 voru 5.342 kg sem er lækkun um 16 kg frá árinu 2009. Þá lækkar próteinhlutfallið einnig á milli ára úr 3,38% í 3,35% en fituhlutfallið eykst úr 4,21% í 4,22%. Verðmætaefni mjólkurinnar árið 2010 reiknast því 404,0 kg. Árið 2009 námu verðmætaefni mjólkurinnar 406,7 kg og lækkar um 0,7% á milli áranna.

 

Samtals reiknast nú 14 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er ánægjuleg aukning frá fyrra ári þegar 12 bú voru yfir 7.000 lítra meðalnyt.

 

– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr árið 2010 eru á bænum Hóli í Sæmundarhlíð (34,4 árskýr) en þar var meðalnytin 7.818 kg með 4,01% fitu og 3,46% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 584,0 kg. Meðalnyt búsins hefur aukist verulega á milli ára, eða um 937kg.

 

– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru í Kirkjulæk 2 (44,0 árskýr) þar sem meðalnytin reiknast nú 7.671 kg/árskúna með 4,20% fitu og 3,47% prótein og magn verðmætaefnanna því að jafnaði 588,4 kg.

 

– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru í Gunnbjarnarholti (106,5 árskýr), en þar var meðalnytin 7.706 kg/árskúna með 4,02% fitu og 3,42% prótein og magn verðmætaefna mjólkurinnar því 573,3 kg.

 

Á listanum yfir 10 afurðahæstu bú landsins árið 2010 (óháð bústærð) eru 3 hástökkvarar, þ.e. þrjú ný bú á listanum. Hástökkvarinn, þ.e. það bú sem hefur mesta afurðaaukningu á milli ára, er búið Hraunkot þar sem hefur náðst glæsilegur árangur á árinu en búið endaði í 7.632 kg sem er afurðaaukning á einu ári um 16,6%!

 

Afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) árið 2010 var Örk frá Egg með 12.418 kg með 3,30% próteini og 4,38% fitu og verðmætaefnin því alls 953,7 kg sem reyndist einnig vera mesta framleiðsla ársins 2010.

 

Fram kemur í yfirliti BÍ að 10 kýr mjólkuðu yfir 11 þúsund kg árið 2010, þar af tvær yfir 12 þúsund kg. sem er aukning frá árinu 2009 þegar átta kýr fóru yfir 11 þúsund kg.

 

Allar nánari upplýsingar má lesa á upplýsingasíðu BÍ um skýrsluhaldið með því að smella hér en einnig er gerð all góð grein fyrir skýrsluhaldinu í öðru tölublaði Bændablaðsins.