Beint í efni

Meðalafurðir lækka á milli mánaða!

14.11.2011

Niðurstöður skýrsluhaldsins fyrir október 2011 eru nú komnar út hjá Bændasamtökunum, en litlar breytingar hafa orðið frá síðasta mánuði. Meðalafurðir í Hraunkoti reiknast enn hæstar yfir landið í flokki fjósa með færri en 40 árskýr, Kirkjulækur II með mestar afurðir fjósa með 40-80 árskýr og Gunnbjarnarholt sem fyrr með mestar afurðir í flokki fjósa með fleiri en 80 árskýr. Ný í efsta sæti á lista afurðahæstu kúa er kýrin Klara frá Hólmi.
 
Alls komu 598 bú til uppgjörs sem eru hlutfallsleg skil upp á 94%. Fjöldi árskúa í þessum skýrsluskilum var 22.531 eða 40,0 árskýr að jafnaði á hvern skýrsluhaldshafa og hefur árskúafjöldinn stigið jafnt og þétt frá því í sumar þegar meðalfjöldinn var ekki nema 36,0 árskýr (júlí).
 
Þegar horft er til meðalafurðanna kemur fram að afurðalækkun verður á milli mánaða en meðalafurðirnar mælast nú 5.345 kg sem er 1 kg. samdráttur frá því í september. Próteinhlutfallið var 3,37 (óbreytt frá fyrra mánuði) og fituhlutfallið 4,22 (óbreytt frá fyrra mánuði) og framleiðsla verðmætaefna því 405,7 kg. Sé horft til sambærilegra niðurstaðna í október í fyrra þá voru meðalafurðirnar 5.318 kg og 37,0 árskýr. Samtals reiknast nú 18 bú yfir 7.000 lítra meðalnyt sem er tveimur búum fleiri en í september.
 
– Mestar meðalafurðir búa með færri en 40 árskýr eru sem fyrr í Hraunkoti (16,8 árskýr) en þar var meðalnytin 8.355 kg með 4,23% fitu og 3,48% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 644 kg.
 
– Mestar meðalafurðir búa með 40-80 árskýr eru nú á ný í Kirkjulæk II (42,1 árskýr) þar sem meðalnytin reiknast nú 7.936 kg með 4,15% fitu og 3,52% próteini og magn verðmætaefna mjólkurinnar því að jafnaði 609 kg.
 
– Mestar meðalafurðir búa með fleiri en 80 árskýr eru sem fyrr í Gunnbjarnarholti (100,5 árskýr), en þar var meðalnytin 7.200 kg með 4,10% fitu og 3,44% prótein og magn verðmætaefna mjólkurinnar því 543 kg.
 
Afurðahæsta kýr landsins (reiknað út frá kg mjólkur) er ný á toppnum en það er kýrin Klara nr. 88 frá Hólmi með 12.274 kg. sl. 12 mánuði með 3,39% prótein og 4,08% fitu og magn verðmætaefna því alls 917 kg. Sé eingöngu horft til framleiðslu vermætaefna mjólkurinnar, líkt og gert er víða um heim þegar afurðir eru skoðaðar, lendir Klara í fimmta sæti á framleiðslulistanum og fer þá Gulla nr. 562 frá sama búi í fyrsta sæti listans en sl. 12 mánuði skilaði hún af sér 961 kg. af fitu og próteini. Fram kemur í yfirliti BÍ að 13 kýr mjólkuðu yfir 11 þúsund kg. sl. 12 mánuði, þar af 2 yfir 12 þúsund kg./SS
 
Smelltu hér til að fræðast nánar um niðurstöður skýrsluhaldsins