Beint í efni

Meðalafurðir í Danmörku yfir 9.000 kg

08.01.2010

Samkvæmt niðurstöðum skýrsluhaldsins í Danmörku fyrir nýliðið skýrsluár, 1. okt. 2008-30. sept. 2009, voru meðalafurðir kúnna þar í landi 9.022 kg mjólkur og 697 kg verðefna. Það er aukning um 100 kg mjólkur og 13 kg verðefna frá árinu á undan. Hlutfall fitu- og próteins hækkar einnig milli ára. Fjöldi árskúa á skýrslum jókst um 10.000, eða 1,9%. Á móti fækkar búum líkt og undanfarin ár, um 187 bú eða 4,7%. Þar með er eykst meðalbústærðin um 8,7 kýr, í 135,3 árskýr. Stærsta kúabú landsins er I/S Jensen og Laursen, með 1.234,4 árskýr. Þróunin í átt að færri og stærri búum heldur því áfram af fullum krafti. 

Varðandi einstök kúakyn, þá eykst nyt svartskjöldóttu kúnna (Dansk Holstein, DH) um 125 kg, þ.e. 15 kg verðefna. Þeim fjölgar um 5.500 og eru 72,3% af skýrslufærðum kúm. Afurðahæsta DH búið, og þar með afurðahæsta bú landsins, var með 983 kg verðefna og 13.248 kg mjólkur. Mestu afurðir á einu búi, mældar í kg mjólkur, voru 13.507 kg sem jafngildir að allar kýrnar á búinu hafi dag hvern mjólkað 37 kg. Nythæsta kýrin gaf af sér um 20.000 kg mjólkur, eða 54,8 kg á hverjum einasta degi.

 

Rauðu kýrnar, RDM, gáfu að jafnaði af sér 679 kg verðefna, sem er aukning um 14 kg frá fyrra ári. Afurðaaukningin er 82 kg mjólkur, auk hærri fitu- og próteinprósentu. Það er athyglisvert að sjá, að þetta fyrrum ráðandi kúakyn Dana telur nú færri en 40.000 kýr. Hrein RDM bú eru nú 191 talsins og þau minnstu í landinu að jafnaði, með 89,9 árskýr. Á afurðahæsta búinu voru meðalafurðir 860 kg verðefna og 10.224 kg mjólkur. Afurðahæsta kýrin gaf af sér 1.524 kg verðefna og 14.461 kg mjólkur.

 

Jersey kúnum fjölgaði um 2.588 eða 0,3% á sl. ári. Afurðaaukningin er 9 kg verðefna, mjólkurmagnið eykst lítillega en ágæt aukning er í efnahlutföllum. Fituhlutfallið er að jafnaði 5,90% og próteinhlutfallið 4,06%. Hrein Jersey bú eru nú 332 talsins og stækka um 9,6 árskýr að jafnaði. Meðalstærð þeirra er nú 138 árskýr og eru þar með stærstu bú landsins, mælt í kúafjölda. Nythæsta búið er með 849 kg verðefna eða 8.548 kg mjólkur og nythæsta jerseykýrin gaf af sér 1.225 kg verðefna og 12.683 kg mjólkur alls.

 

Ýtarlegri niðurstöður skýrsluhaldsins í Danmörku er að finna hér.