Meðal afurðastöðvaverð í Evrópu 56,85 kr/l
30.07.2015
Samtök evrópskra kúabænda, European Dairy Farmers (EDF), birta reglulega upplýsingar um afurðastöðvaverð helstu afurðastöðvanna í Evrópu, en þess má geta að Ísland er ekki með í því uppgjöri. Nú hefur verið birt uppgjör ársins 2014 en það ár var einkar hagfellt evrópskum kúabændum, en nú er því miður allt önnur staða uppi. Síðasta ár var greitt metverð fyrir mjólkina, 38,62 evrusent eða 56,85 krónur á líterinn, og hækkaði afurðastöðvaverðið um 1,7% að meðaltali í Evrópu frá árinu 2013.
Eins og áður hefur komið fram hefur verið erfið staða á heimsmarkaði mjólkurvara allt þetta ár og hefur afurðastöðvaverðið tekið breytingum í takti við þá stöðu. Þannig er nú algengt afurðastöðvaverð í Evrópu víða um 28-30 evrusent á líterinn af meðalmjólk í bestu gæðum eða um 41-44 krónur á líterinn.
Sé horft til einstakra afurðafélaga þá segir EDF að hæsta afurðastöðvaverðið hafi verið greitt af hinu finnska Hämeenlinnan O, en það er lítið afurðafélag þar í landi, en félagið greiddi innleggjendum sínum 45,91 evrusent á síðasta ári fyrir hvern líter eða sem nemur 67,58 krónum á líterinn. Stóru aðilarnir á hinum evrópska markaði, s.s Arla, FrieslandCampina, Dairy Crest, Danone, Lactalis og DMK, raða sér allir á topp 15 listann yfir þá sem greiða hæsta afurðastöðvaverðið í Evrópu.
Þess má geta að til viðbótar afurðastöðvaverðinu fá margir kúabændur beingreiðslur eða styrki frá Evrópusambandinu eða heimalandi sínu, oftast sem hektarastyrki, jarðræktarstyrki eða gripagreiðslur/SS.