Beint í efni

Með hvaða hugarfari eigum við að nálgast ræktunarstarfið?

22.12.2011

Framkvæmdastjóri Landsambands kúabænda ritaði fyrir skömmu pistil á naut.is þar sem gerð er grein fyrir helstu niðurstöðum afkvæmadóms nautaárgangs 2005 og nýjum nautum sem tekin verða til notkunar, sem og nýjum nautsfeðrum.  Einnig fjallaði hann örlítið um ætterni þeirra nauta sem valin hafa verið til notkunar sem nautsfeður og niðurstöður athugunar Þorvaldar Kristjánssonar á þróun skyldleikaræktar og virkri stofnstærð í íslenska kúastofninum.  Í ljósi þessara skrifa framkvæmdastjórans tel ég rétt að fara yfir nokkur atriði sem ekki koma fram í umræddum pistli en verða að teljast afar mikilvæg í þessu samhengi og umræðunni um það hvernig halda skuli á málum í framhaldinu.

Fyrirlestur Þorvaldar Kristjánssonar um þróun í skyldleikarækt og virkri stofnstærð á nautgriparæktarráðstefnunni þann 30. nóvember síðastliðin var bæði vandaður og afar áhugaverður enda unninn af manni sem kann vel til verka og hefur áður unnið samskonar greiningar bæði í íslenska kúastofninum og íslenska hrossastofninum.  Það er einnig ljóst að þessi athugun var mjög svo tímabær þar sem niðurstöðurnar sýndu skyldleikaræktaraukningu og samdrátt í virkri stofnstærð og er alvarleg aðvörun til okkar, sem berum ábyrgð á ræktunarstarfi íslensku mjólkurkýrinnar, um að nauðsynlegt sé að grípa strax til aðgerða til þess að snúa af þessari braut.  Það kom nefnilega einnig skýrt fram í umfjöllun Þorvaldar að þetta er ekki óafturkræf þróun en til þess að bæta um betur þurfum við að gera ráðstafanir til þess að draga úr skyldleikaræktaraukningunni í stofninum. 

Á áðurnefndri ráðstefnu í nautgriparækt komu fram fjölmörg áhugaverð erindi.  Eitt af aðalerindum ráðstefnunnar var umfjöllun Ágústar Sigurðssonar um ræktunarárangur síðustu 30 ára.  Ágúst hefur nú um 20 ára skeið annast útreikninga á kynbótamati fyrir íslenska nautgripi enda á hann heiðurinn að því kynbótamatskerfi sem notað er í dag.  Í erindi Ágústar kom fram að framfarir hafa náðst fyrir alla eiginleika, þó mismiklar séu.  Talsverður árangur hefur náðst fyrir afurðaeiginleika og svo nú á síðustu árum fyrir t.d. júgur og spena meðan við höfum náð minni árangri fyrir eiginleika, s.s. frjósemi.  Í máli Ágústar kom einnig glöggt fram að þrátt fyrir árangur undanfarinna ára er sá árangur samt talsvert minni en við hefðum getað vænst að ná í okkar stofni með það kynbótaskipulag sem sett hefur verið upp.  Árangur okkar er í raun aðeins sem nemur 2/3 mögulegum framförum af þeirri einföldu ástæðu að þátttakan í kynbótastarfinu er ekki nægjanlega góð. Heimanautanotkun er of mikil sem leiðir til þess að við erum ekki með alla gripi virka í ræktunarstarfinu og því náum við ekki fullum afköstum.

Kynbótastarfið í nautgriparækt á Íslandi er byggt upp á félagslegum grunni.  Það eru því bændur sem halda ræktunarstarfinu upp með því annars vegar að framleiða úrvalskynbótagrip sem geta komið til notkunar sem sameignilegir kynbótagripir fyrir stofninn og hins vegar með því að taka þátt í að afkvæmaprófa óreynd naut.  Árangur ræktunarstarfsins byggir því ekki bara á því ræktunarskipulagi sem sett er upp heldur er þátttaka bænda lykilatriði til þess að árangur náist. 

Margt fleira kom áhugavert fram á ráðstefnunni.  Var þar meðal annars komið inn á notkun sameindaerfðafræðinnar í mati á skyldleika og beint í ræktunarstarfinu. Fjallað var um aðbúnað, blendingsrækt til kjötframleiðslu og  frjósemi svo eitthvað sé nefnt.  Hvet ég menn til að kynna sér efni frá ráðstefnunni, sem er aðgengilegt inn á www.bondi.is  

Í pistli sínum á vef Landsamband kúabænda setur framkvæmdastjóri samtakana fram þá skoðun sína að hann telji ólíklegt að íslenskir kúabændur sætti sig við minni framfarir en nú eru.  Nú kemur það ekki skýrt fram í textanum af hvaða ástæðum hann hefur áhyggjur af því að framfarir verði minni, hvort það sé vegna þess að við séum búin að ganga svo mikið á breytileikan að endastöð sé náð eða hvort það séu væntanlegar aðgerðir til að draga úr skyldleikaræktaraukningunni sem valda framkvæmdastjóranum áhyggjum, það verður hann að skýra nánar út sjálfur.

Það hefur alltaf legið ljóst fyrir að ræktunarstarfið í kúakyninu okkar þarf að taka mið af því að við erum með lítinn stofn og að við þurfum að vera vakandi gagnvart skyldleikanum í erfðahópnum.   Meiri áhersla á að draga úr aukningu skyldleika mun líklega alltaf, að einhverju leyti, verða á kostnað erfðaframfara. Á þessari stundu liggur þó ekki fyrir neitt mat um það hvort sá kostnaður er mikill eða lítill, enda veltur það á þeim aðgerðum sem gripið verður til.  Sýnilega aukningu í skyldleikarækt má að einhverju leyti rekja til þess að undanfarin ár hafa ætternisfærslur batnað og við því nú að fá betra mat á raunverulega stöðu stofnsins. Betri ættfærslur eru hins vegar líka grundvallaratriði í því að geta náð að takast á við vandann.

Hafi framkvæmdastjórinn hlustað gaumgæfileg á erindi Þorvaldar Kristjánssonar og Margrétar Guðrúnar sem hann minnist á í umfjöllun sinni, ætti honum að vera ljóst, að ekki er of seint að grípa til aðgerða til að snúa þessari þróun við.  Hafi hann hlustað á erindi Ágústar þá ætti honum að vera ljóst að þrátt fyrir að við þurfum nú að huga að skyldleikanum í auknum mæli, og þá hugsanlega að einhverju leit á kostnað framfara, þá höfum við einnig tækifæri til þess að vega upp á móti þeim áhrifum með aukinni þátttöku í ræktunarstarfinu. Á þessum tímapunkti er því óþarfi að mála skrattann á vegginn heldur ættum við frekar að beina kröftum okkar í að skoða þá möguleika sem við höfum í stöðunni og hvernig við getum unnið sem best úr þeim.

Fyrir 10 árum síðan var sú sem þetta ritar að taka sín fyrstu skref við búvísindadeild Landbúnaðarháskóla Íslands og getur því í sjálfu sér ekki fullyrt um það hvaða þekkingu þeir, sem þá numu kynbótafræði, öðluðust, enda margt nýtt komið fram á sviði erfðafræðinnar síðan þá.  Þó tel ég líklegt að þá, eins og nú, hafi menn gert sér grein fyrir því að ræktunarstarf er í eðli sínu langtímaverkefni.  Þær ákvarðanir sem teknar eru í dag koma ekki að fullu fram fyrr en eftir mörg ár.  Það þýðir einnig að það sem við sjáum núna, hvort sem það er jákvætt eða neikvætt, er að miklum hluta afleiðing þeirra ákvarðana sem teknar voru á fyrstu árum þessarar aldar og jafnvel fyrr.  Þau naut sem okkur standa nú til boða sem kýrfeður og nautsfeður voru valin inn í kerfið árin 2003-2005.  Reyndar veit framkvæmdastjórinn líklega mun betur en ég hvað lá þar til grundvallar, því einmitt þá starfaði hann sem nautgriparæktarráðunautur hjá Bændasamtökum Íslands. 

Auðvitað sníður það okkur talsvert þrengri stakk í baráttunni við skyldleikan að þau reyndu naut sem við höfum úr að spila eru svona mikið skyld (margir Stígssynir undan Kaðalsdætrum). En það þýðir hins vegar ekki að allt sé tapað.  Við verðum  taka tillit til þessa í notkun á nautunum og muna síðan að um helmingur ásettra kvígna ætti að vera undan óreyndum nautum og við getum að sjálfsögðu strax gripið til aðgerða í vali á nautsmæðrum og óreyndum nautum inn á stöð, sem miða að því að draga úr skyldleikaræktaraukningu.  Þannig myndum við  leggja grunnin að því að þeir sem þessu starfi sinna eftir áratug standi ekki í sömu sporum og við gerum í dag.

Það er þannig með öll verkefni, sem við glímum við, að árangurinn verður alltaf að einhverju leiti háður því með hvaða hugarfari við nálgumst verkefnið.  Við getum valið að einblína eingöngu á neikvæðu hliðarnar og þar með í raun dæma verkefnið fyrirfram óleysanlegt, eða við getum reynt að draga fram þá jákvæðu hluti sem við höfum úr að spila og bregðast við þeim neikvæðu með því að draga úr áhrifum þeirra. 

Bændasamtök Íslands bera ábyrgð á ræktunarstarfi í íslenskri nautgriparækt.  Að því verkefni koma landsráðunautar í nautgriparækt og fagráð í nautgriparækt en í því sitja 4 starfandi bændur ásamt nautgriparæktarráðunautum BÍ.  Íslenska mjólkurkýrin er það kyn sem við vinnum með í dag.  Líkt og öll önnur búfjárkyn hefur hún sína kosti og galla.  Verkefni okkar er að vinna úr kostunum og draga úr áhrifum gallana.  Vera meðvituð um það sem við erum með í höndunum og vinna að þessu verkefni með jákvæðu hugarfari með langtímamarkmið í huga.

Með þessum orðum vil ég óska kúabændum og öðrum áhugamönnum um ræktunarstarfið, gleðilegra jóla og farsæls komandi árs

 

Gunnfríður Elín Hreiðarsdóttir

MSc í erfðafræði, doktorsnemi í stofnerfðafræði búfjár og starfandi landsráðunautur í nautgriparækt hjá Bændasamtökum Íslands