Með góðri stjórn má spara með beit!
31.07.2010
Margir erlendir bændur fóðra mjólkurkýrnar allt árið um kring, jafnvel þótt þær fari út yfir sumartímann. Skýringin liggur í jafnari fóðrun og minni hættu á fóðrunarsjúkdómum. En þessi aðferð við fóðrun er þó ekki ódýr og í Bretlandi er nú að verða vakning fyrir því að ætla hánytja kúm að taka stærri hluta sumarfóðursins á beit, kostnaðarins vegna.
Með því að láta hánytja kýr (yfir 10.000 lítrum/305 dögum) fá á bilinu 6-15 kg af daglegri þurrefnisþörf hefur breskum kúabúum
tekist að bæði minnka þörf búanna fyrir heilfóður, en það hefur einnig leitt til sparnaðar í vinnu.
Sparnaður sem nemur 0,75 pundum á kú á dag!
David Homer, breskur kúabóndi, metur það svo að kostnaður við fóðureininguna utandyra í Bretlandi sé u.þ.b. helmingur þess sem fóðrið kostar inn á fóðurgangi og u.þ.b. fjórðungur kjarnfóðurverðsins. Til þess að ná þeirri niðurstöðu þýði þó ekki að bara opna fjósdyrnar og hleypa kúnum út. Stjórna þurfi beit kúnna á grasinu á hverjum degi, allt sumarið. „Gæði hins aðgengilega fóðurs þarf ávallt að vera í góðu lagi, ef kýrnar eiga að ná að éta jafnt og þétt stóran hluta þurrefnisþarfar sinnar. Þetta kallar á bragðgott gras, með þrjú blöð hverju sinni og orku upp á 12 MJ/kg/þurrefnis“, sagði David í viðtali við blaðið Bovilogisk. Til viðbótar þarf beitarsvæðið að vera þannig staðsett og þannig í laginu að hámarks nýting náist. Með því að hafa góða stjórn á beitinni og gæðum beitarinnar telur David sig spara um 0,75 pund (um 141 Íkr) á hverja kú á dag m.v. að Holstein-kýrnar hans éti u.þ.b. 6-7 kg þurrefnis af beitinni. Auk þess sparar David vinnu við þrif á fjósinu þar sem allt aðgengi að básum er auðveldara þegar fjósið er tómt.
Beitarstjórn er lykilþáttur
Með því að færa hluta af fóðrun hánytja kúa út á beitina er í raun verið að nýta hluta af reynslu kúabænda í Nýja-Sjálandi, þar sem kúm er beitt allt árið. Finna þarf jafnvægið á milli beitarþungans og endurvaxtar hágæða beitargróðurs. Samhliða þarf að tryggja að kýrnar éti sig vel saddar á beitinni og fái næga orka svo þær gangi ekki á holdin. Þetta gera breskir bændur með því að hafa daglega blandað heilfóður aðgengilegt á fóðurganginum, enda tryggja þeir þannig að kýrnar vanti ekki mikilvæg næringarefni og fóðurmagnið er þá einnig blandað í réttum hlutföllum við ætlað þurrefnisát á beitinni þann daginn.
Lykilþáttur í beitarfóðrun kúa eru daglegar mælingar á aðgengilegu fóðurmagni á beit kúa með því að nota sk. plötumæli. Með honum mælir kúabóndinn magnið af aðgengilegu grasi á hverjum hektara (mælt í kg þurrefnis), sem gerir honum mögulegt að ákvarða stærð beitarhólfsins þann dag. Án slíkra daglegra mælinga er engin leið að stjórna beitinni og þar með hefur bóndinn enga yfirsýn yfir það hve mikið magn fóðurs kýrnar eru að éta á degi hverjum. Út frá þeim útreikningum, getur bóndinn í framhaldinu ákvarðað á hverjum degi, hve mikið kýrnar þurfa að éta inni á fóðurgangi til þess að halda sér í háum afurðum.
Byggt á grein úr Bovilogisk (07/2010)