Með fundarsal í fjósinu!
02.11.2006
Á bænum Seljavöllum í Austur-Skaftafellssýslu var í mars á þessu ári, tekið í notkun nýtt fjós. Það sem gerir það frábrugðið flestum öðrum fjósum, er að yfir mjólkurhúsi og skrifstofu var innréttaður fullkominn fundarsalur. Utan á gafli fjóssins er síðan hringstigi upp í fundarsalinn, þannig að hann er alveg lokaður frá öðru rými í fjósinu. Óhætt er að segja að þessi aðstaða sé að öllu leyti til fyrirmyndar.
Nú er nýlokið haustfundaferð LK og á dögunum var fundur þess og Nautgriparæktarfélags Austur-Skaftafellssýslu að sjálfsögðu haldinn í fundarsalnum á Seljavöllum. Aðsókn var ágæt og fundurinn málefnalegur. Á myndinni hér að neðan má sjá Þórólf Sveinsson, formann LK halda framsögu. Í gegnum gluggann sem sést við hlið formanns, má sjá vel yfir fjósið og það sem þar er að gerast. Að sögn ábúenda, Eiríks Egilssonar og Elínar Oddleifsdóttur hafa um 1.000 gestir skoðað fjósið frá því það var tekið í notkun, þar á meðal forseti vor hr. Ólafur Ragnar Grímsson og eiginkona hans, Dorrit Moussajeff.
Frá fundinum á Seljavöllum 25. október s.l.