
Með 310 lítra á tímann!
24.03.2018
Þrátt fyrir að kúabúum hafi stöðugt fækkað í Svíþjóð og að mjólkurframleiðsla landsins hafi dregist saman undanfarin ár, sýnir uppgjör á afkomu búanna að þau standa í raun ákaflega sterkt og að rekstur þeirra sé vel samkeppnishæfur í samanburði við rekstur kúabúa í öðrum löndum Evrópusambandsins. Þetta kemur m.a. fram í uppgjöri evrópsku samtakanna EMB, sem eru samtök kúabændafélaga í Evrópu. Þar segir raunar að samkvæmt rekstrarupplýsingum um rekstur sænskra kúabúa þá sé þarlend mjólkurframleiðsla kostnaðarsöm vegna hárra launa og mikils kostnaðar við bæði vélar, tæki og byggingar en búin séu vel rekin og geti framleitt mjólk á samkeppnishæfu verði.
Skýringin felst, að mati EMB, í því að kýrnar í Svíþjóð eru að jafnaði afurðaháar og kostnaður við gróffóðuröflun er minni en víða annarsstaðar sem leiðir til bættrar samkeppnishæfni búanna. Þá hefur hátt verð á nautgripakjöti í Svíþjóð afar jákvæð áhrif á rekstur búanna. Í skýrslunni kemur fram að framleiðslugeta hverrar vinnustundar á sænsku kúabúunum gefur af sér að jafnaði 310 lítra mjólkur, en til samanburðar þá eru slökustu búin í uppgjöri EMB ekki með nema 170 lítra á hverja vinnustund. Þessi afar góða nýting vinnuaflsins gerir það einnig að verkum að sænsku búin standa sterk í þessum samanburði á milli ólíkra landa/SS.