Beint í efni

Með 300 þúsund kýr!

30.04.2012

Nafnið kann að hljóma bandarískt eða breskt en Dairy United heitir fyrirtæki sem á og rekur 151 kúabú með 2.000 kúm á hverju þeirra eða með alls um 300 þúsund kýr! Dairy United er hinsvegar kínverskt fyrirtæki með sína framleiðslu þar í landi. Nú hefur fyrirtækið tekið upp samstarf við Íra um uppbygginu á tilraunabúi í Mongólíu, í norðurhluta Kína. Þar er fyrirtækið í samstarfi við írska háskólann University college Dublin og verður kúabúið staðsett u.þ.b. 40 km frá Hohhot.

 

Sérstaða búsins verður að öll framleiðsla og stjórn þess verður að hætti Íra s.s. í tengslum við beitarbúskap, auk þess sem eingöngu verður írskur búnaður í notkun á búinu. Kúabúið verður tilbúið til framleiðslu í ágúst á næsta ári og er búist við því að kúabúið verði rannsóknarmiðstöð nautgriparæktar í Kína. Þetta er því ekki einungis stórt skref fyrir Dairy United en ekki síður fyrir Íra, sem hafa þarna komist inn á kínverska markaðinn með áhugaverðum hætti/SS.