
Matvælalöggjöf ESB leidd í íslensk lög
15.04.2008
Allmiklar umræður hafa orðið um lagafrumvörp sem Einar K. Guðfinnsson landbúnaðarráðherra hefur lagt fram á þingi og snerta matvælalöggjöfina. Merkustu nýmæli frumvarpsins er að heimilt verður frá haustinu 2009 að flytja inn hrátt kjöt og önnur óunnin matvæli. Jafnframt því verða gerðar róttækar breytingar á öllu eftirliti með hreinlæti og heilbrigði í matvælaframleiðslu. Slíkt snertir að sjálfsögðu landbúnaðinn allra mest.
Að baki frumvarpanna eru í raun tveir lagabálkar sem eru hluti af regluverki Evrópusambandsins. Annars vegar er það svonefndur 1. kafli Viðauka I við EES-samninginn en við gildistöku samningsins árið 1994 fengu Íslendingar undanþágu frá ákvæðum hans hvað varðar búfjárafurðir og lifandi dýr. Ákvæði kaflans um sjávarafurðir hafa hins vegar verið í gildi og eru í raun forsenda útflutnings á þeim til Evrópulanda. Nú er ætlunin að þessi kafli taki til búfjárafurða hér á landi, að því frátöldu að við verðum áfram undanþegin ákvæðum um dýraheilbrigði og flutning lífdýra og erfðaefnis.
Hins vegar er svo matvælalöggjöf Evrópusambandsins sem er lagabálkur um framleiðslu matvæla og dýrafóðurs og opinbert eftirlit með slíkri framleiðslu. Þar eru líka reglur um innflutning dýraafurða frá ríkjum utan EES-svæðisins og samkvæmt þeim mun Ísland þurfa að koma upp landamærastöðvum þar sem slíkar afurðir verða skoðaðar. Eftir þá skoðun er hægt að flytja þær hvert sem er innan EES-landanna. Slíkar stöðvar eru til og hafa eftirlit með fiskafurðum en nú bætast við búfjárafurðir og fóður.
Munurinn á þessum tveimur lagabálkum er fyrst og fremst sá að Viðauki I er hluti af fjórfrelsinu svonefnda sem á að tryggja frjálst vöruflæði á innri markaði EES. Matvælalöggjöfin er hins vegar nýleg smíð og mótast mjög af reynslu Evrópuríkja af baráttunni við kúariðu, gin- og klaufaveiki og aðra heilbrigðisvá á undanförnum árum. Henni er fyrst og fremst ætlað að vernda neytandann og tryggja honum góð og heilbrigð matvæli.
Viðbótartrygging gagnvart salmonellu
Afnám banns á innflutningi á hráu kjöti og öðrum óunnum búvörum snertir fyrst og fremst framleiðendur lamba-, svína- og kjúklingakjöts. Eftir gildistöku laganna verður ekki lengur hægt að banna innflutning kjöts á grundvelli heilbrigðisreglna. Kjöt sem hlotið hefur heilbrigðisvottun í einu landi EES á að geta ferðast frjálst um allt svæðið.
Á þessu er sú undantekning að íslensk stjórnvöld geta farið fram á svonefnda viðbótartryggingu gagnvart kjöti sem gæti innihaldið salmonellu. Sú regla er til komin vegna baráttu Dana og Svía sem hafa komist að því að stór hluti þess alifuglakjöts sem þeir flytja inn frá löndum sunnar í álfunni er sýktur af salmonellu. Stjórnvöld í Danmörku og Svíþjóð gátu vísað til mun betra ástands og eftirlits með salmonellu í kjúklingaframleiðslu en virðist viðhaft sunnar í álfunni. Það gildir vissulega um Íslands því hér er salmonella að heita má óþekkt í kjúklingaframleiðslu.
Annað eftirlit með innflutningi á hráu kjöti, mjólk og eggjum fellur niður. Áfram verður hins vegar haldið uppi hefðbundnu markaðseftirliti á vegum heilbrigðisnefnda sveitarfélaga. Matvælastofnun mun einnig annast eftirlit með innfluttum matvælum sem koma frá löndum utan Evrópu. Ef við hugsum okkur að íslenskt fyrirtæki vilji flytja inn nýsjálenskt lambakjöt eða argentínskt nautakjöt verður að skoða það sérstaklega, svo fremi það hafi ekki haft viðkomu í öðru EES-ríki og verið skoðað þar.
Það eru einnig nýmæli að í þessum lögum er eftirlit með matvælum og fóðri samræmt og sinnt á sama stað. Því má bæta við að eftir gildistöku laganna munu gilda reglur ESB um innflutning á matvælum úr erfðabreyttum lífverum og þar sem vaxtarhormónar hafa verið notaðir við framleiðsluna.
Svo til allir starfsleyfisskyldir
Lögin hafa einnig þau áhrif að íslensk sláturhús þurfa ekki lengur að sækja um sérstaka vottun til þess að fá að flytja út kjöt til Evrópu. Á móti kemur að öll matvælafyrirtæki verða að sækja um starfsleyfi (að grænmetisframleiðendum frátöldum, þeim nægir að tilkynna Matvælastofnun um starfsemi sína). Samkvæmt gildandi lögum þurfa þeir sem stunda nautgripa-, svína- og alifuglarækt að hafa starfsleyfi en sauðfjár- og hrossaræktendur ekki. Nú verður því breytt og þeir sem stunda sauðfjár- og hrossarækt í atvinnuskyni til matvælaframleiðslu skulu vera starfsleyfisskyldir.
Frá þessu er hægt að veita undanþágu þegar í hlut eiga tómstundabændur sem ekki halda sauðfé, geitfé og hross í ágóðaskyni heldur sér til ánægju. Þeir verða þó eftir sem áður skyldir til að vera með sín dýr á skrá hjá viðkomandi búfjáreftirliti og lúta öllum öðrum lögum og stjórnvaldsfyrirmælum, svo sem um einstaklingsmerkingar og fleiri atriði sem varða dýraheilbrigði og dýravernd og heilbrigði sláturdýra, kjósi þeir að senda dýr til slátrunar.
Eftirlit og þjónusta dýralækna aðskilin
Þessir lagabálkar verða væntanlega að lögum í vor og taka gildi í áföngum fram til haustsins 2009. Tíminn fram að því verður notaður til að breyta íslensku laga-, regluverðar- og stofnanaverki og laga það að Evrópureglum. Þar verður veruleg breyting á, ekki síst hvað varðar starfsemi dýralækna.
Samkvæmt frumvarpinu verður dýralæknaumdæmum fækkað úr 16 í 6 og vaktumdæmum úr 15 í 10. Þarna er í raun verið að stíga til fulls skrefið sem hafið var með breytingum á lögum um dýralæknaþjónustu frá 1998. Markmiðið er að aðskilja eftirlits- og þjónustuhlutverk dýralækna. Störf þeirra sem gegna báðum þessum hlutverkum verða lögð niður. Í greinargerð með frumvarpinu segir um þetta:
„Ólíklegt er að dýralæknar fáist til starfa þar sem dýrafjöldi er takmarkaður og verkefni við lækningu dýra fremur fá. Til að ná markmiðum greinarinnar um að tryggja dreifðum byggðum reglubundna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu verður að stuðla að því að fyrir hendi verði nauðsynleg starfsaðstaða fyrir sjálfstætt starfandi dýralækna á Snæfellsnesi, í Dalasýslu, á Vestfjörðum, í Austur- og Vestur-Húnavatnssýslum, í Suður-og Norður-Þingeyjarsýslum, í Norður- og Suður-Múlasýslum og í Austur- og Vestur-Skaftafellssýslum. Jafnframt þarf hið opinbera að greiða einhverja staðaruppbót og/eða kostnað við ferðir dýralækna á þessum stöðum. Að öðrum kosti er ekki tryggt að dýralæknaþjónustan verði nægileg til að tryggja heilbrigði og velferð dýra.“
Margt óljóst
Það sem hér er skráð er einkum haft eftir þeim Baldri Erlingssyni lögfræðingi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og Jóni Gíslasyni forstjóra Matvælastofnunar en þeir héldu kynningarfund um frumvörpin fyrir starfsmenn Bændasamtakanna á dögunum.
Þegar starfsmenn spurðu út í nánari framkvæmda- og útfærsluatriði kom í ljós að mikið verk ef óunnið við að hrinda þessu nýja kerfi í framkvæmd. Baldur tók það skýrt fram að laga þurfi framkvæmdina að íslenskum aðstæðum og að ekki stæði til að íþyngja bændum og öðrum sem starfa að matvælaframleiðslu með óþarflega ströngu eftirliti og skriffinnsku. Hann sagði að í raun væri þessi evrópska löggjöf mjög praktísk í eðli sínu og miðaðist við að hægt sé að halda uppi virku en áreynslulitlu eftirliti, neytendum og framleiðendum til hagsbóta.
Það kom einnig fram í máli þeirra að mörgum spurningum er ósvarað um kostnaðinn sem af þessum breytingum hlýst. Áætlað er að kostnaður við innleiðingu reglnanna aukist í rúmlega 100 milljónir króna á ári fram til 2010 en verði á því rólinu eftir það. Ljóst er að á endanum verða það neytendur og skattgreiðendur sem standa undir kostnaðinum, en hvernig honum verður deilt út er stjórnmálamanna að ákveða.
–Þröstur Haraldsson, umfjöllun birt í Bændablaðinu 15. apríl 2008.