Beint í efni

Matvælaframleiðsla og Covid-19

21.03.2020

Covid-19 veiran herjar nú á landið og þá er í mörg horn að líta svo matvælaframleiðsla geti haldist í eins eðlilegum horfum og hægt er. Hagsmunagæsla LK á þessum tímum felst í því að afla og miðla réttum og nauðsynlegum upplýsingum til bænda, tryggja að framleiðsla raskist ekki verulega sökum veikinda eða sóttkvíar, vakta aðgang að þeim aðföngum sem nauðsynleg eru í búskap ásamt mörgu öðru.

Viðbragðsteymi að störfum alla daga

Í síðustu viku var sett á fót viðbragðsteymi Bændasamtaka Íslands sem ég sit í. Teymið fundar daglega og fer yfir stöðuna, skiptir með sér verkum í upplýsingaöflun og verkefnum. Við erum í góðu sambandi við stjórnvöld og aðra sem að málum koma og allir leggja hönd á plóg í þessu verkefni svo við séum vel undirbúin fyrir hvaða stöðu sem kann að koma upp. Búið að er að setja á fót upplýsingasíðu fyrir bændur á bondi.is sem er uppfærð reglulega og hvet ég bændur til að fylgjast með þar.

Stærri afurðafyrirtæki styðjast við góðar viðbragðsáætlanir sem þau hafa sett sér. Staða fyrirtækja sem eru að flytja inn fóður, fóðurhráefni og áburð hefur verið könnuð í samstarfi við Matvælastofnun og samkvæmt fyrirtækjunum er ekki ástæða til að hafa áhyggjur af því að truflun verði á þeim aðföngum. Þá var einnig haft samband við skipafélög sem fullyrða að engar breytingar séu áætlaðar á skipaferðum.

Fyrirtæki í afurðavinnslu hafa undanfarið hagað sínum pöntunum á hráefni og öðru sem kemur að utan þannig að þau eru að panta mun meira magn ef ske kynni að truflanir yrðu.  Fyrirtækin eru með sínar eigin viðbragðsáætlanir eins og atvinnulífið almennt s.s.  hvernig þau munu taka á því ef starfsmaður smitast eða þarf að fara í sóttkví, án þess að framleiðsla raskist verulega. Þá hafa reglur í umgengni og hreinlæti hertar til muna, umfram þær almennu reglur sem þegar gilda í matvælaframleiðslu.

Hópur um afleysingaþjónustu er að störfum og þar sitja framkvæmdastjórar frá búnaðarsamböndum auk starfsmanni BÍ. Búið er að auglýsa eftir fólki til þess að sinna afleysingaþjónustu fyrir bændur komi til veikinda. Nýti ég tækifærið hér til að hvetja þá sem eiga þess kost að skrá sig á þann lista.

Pólitíkin er fleygiferð og fylgjumst við náið með öllu sem þaðan kemur. Frumvarp frá félagsmálaráðherra um greiðslu hlutaatvinnuleysisbóta vegna minnkaðs starfshlutfalls og frumvarp um framlög ríkisins vegna launagreiðslna fyrirtækja til starfsmanna sem eru í sóttkví hafa nú verið samþykkt á Alþingi. Auk þess hefur ríkisstjórnin boðað kynningu á umfangsmiklum efnahagspakka, enda ljóst að efnahagsleg áhrif Covid-19 verða töluverð. Við munum fylgjast náið með því og upplýsa bændur þá sem áður um það sem að þeim snýr.

Skrifstofustarfsemi með breyttu sniði

Eðli málsins samkvæmt er starfsemi á og aðgangur að skrifstofum um land allt með breyttu sniði. Óskað er eftir því að fólk nýti eftir fremsta megni tæknilausnir í samskiptum við skrifstofustarfsfólk. Hjá LK hefur þetta ekki nein teljandi áhrif á starfsemina. Fundir eru allir í gegnum fjarfundarbúnað og tölvupóstur og sími nýtist vel nú sem áður. Ég hvet þá sem hafa einhverjar spurningar að hafa samband og við upplýsum ykkur um stöðu mála.

Bændasamtökin hafa lokað á aðgengi óviðkomandi að skrifstofunni á 3. hæð í Bændahöllinni og RML hafa boðað breytingar á starfsemi sinni, þ.á.m. að engar skipulagðar heimsóknir verða til bænda af hálfu starfsmanna RML á tímabilinu 16. mars – 13. apríl. Allt er þetta gert með það að markmiði að gæta fyllsta öryggis, bæði fyrir starfsfólk, bændur og aðra.

Sýnum tillitssemi og skilning

Í tilkynningu frá Auðhumlu kemur fram að mjólkurbílstjórar eru nú með einnota hanska og spritt meðferðis í mjólkurbílunum. Framleiðendur eru vinsamlega beðnir um að hafa einhver ílát eða poka inni í mjólkurhúsum þar sem mjólkurbílstjórar geta losað sig við hanskana að notkun lokinni. Eins eru framleiðendur beðnir um að forðast samskipti við mjólkurbílstjóra eins og kostur er.

Sama gildir um gripaflutningafólk, frjótækna, dýralækna og aðra sem koma heim að búinu. Það er mikilvægt að við mætum breyttum samskiptum með skilningi og fylgjum útgefnum leiðbeiningum. Þessi veira er hættuleg og allar leiðbeiningar um umgengni eru til þess að vernda þá sem viðkvæmastir eru.

Nauðsynlegt er fyrir bændur að hafa viðbragðsáætlun sem tekur til þátta sem mikilvægir eru til að tryggja órofinn búrekstur komi til veikinda. Gera þarf ráð fyrir að afleysingamaður geti gengið inn í dagleg störf án þekkingar á viðkomandi búi eða með aðstoð bónda. Þá skiptir viðbragsáætlun hvers bús höfuðmáli. Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins hefur útbúið grunn að viðbragsáætlun fyrir helstu gerðir búrekstrar sem má nálgast hér. 

Gætum að andlegri líðan

Þessi vetur hefur verið erfiður fyrir marga. Óvenjuslæmt veðurfar setti sinn svip á daglegt líf í desember og hafa gular og appelsínugular viðvaranir verið gefnar út mjög reglulega. Núgildandi tilmæli um lágmarks samskipti fólks geta einnig reynst mörgum erfið og kvíði vegna Covid-19 er mjög algengur. Allar eiga þessar tilfinningar rétt á sér. Það eru mörg úrræði í boði til að vinna á vanlíðan, þau er m.a. hægt að finna hér undir sálgæsla og áfallahjálp.

Verum dugleg að heyra í nágrönnum, vinum og ættingjum. Verum til staðar og bjóðum fram aðstoð eftir þörfum og getu. Það er t.d. hægt að skrifa niður lista af fólki og setja sér það markmið að taka eitt „auka” símtal á dag.

Klárum þetta saman

Það er ljóst að samfélagið lærði mikið af hruninu 2008 þegar kemur að undirbúningi og viðbrögðum við svona stórum áföllum. Allir eru boðnir og búnir til að leggja sitt af mörkum og reyna að líta til allra mögulegra sviðsmynda við undirbúning. Allt samstarf er til fyrirmyndar og miðlun upplýsinga hefur verið hröð og nákvæm. Viðbragðsteymi BÍ hefur unnið gríðarvel saman þó svo við komum úr öllum áttum landbúnaðarins og aðstæður séu ólíkar. Samstaðan er áþreifanleg og það gefur mér mikla trú á að sameining bænda í félagskerfinu muni ganga vel þegar þar að kemur. Við erum jú öll á sama báti.

Þetta eru auðvitað fordæmalausir tímar en við vinnum þetta samkvæmt leiðbeiningum Almannavarna ásamt því að taka stöðuna dag frá degi svo allir boltar séu gripnir. Lítum á þetta sem verkefni sem þarf að klára, það kunnum við vel. Gætum að hreinlæti, sýnum skilning, tillitssemi og varkárni og hjálpumst að. Enginn getur allt en allir geta eitthvað.

Skrifað í Skagafirði 20. mars

Margrét Gísladóttir, framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda