Beint í efni

Matarsóunin – Íslendingar henda árlega þúsundum tonna af mat!

06.07.2019

Ísland er eyja í Atlantshafi, það þýðir að við þurfum að fá ákveðin aðföng utan úr heimi s.s. matvæli, en með flutningi þeirra stækkum við sótspor okkar. Þessi matvæli eru okkur nauðsyn, þar sem á landinu okkar er ómögulegt að rækta og framleiða ákveðin matvæli. Þegar þetta er haft í huga er um leið mikilvægt að við skoðum hvar við getum dregið úr skaðlegum áhrifum okkar í umhverfið í gegnum virðiskeðjuna alla, þ.e. allt frá upphafi í landbúnaðarframleiðslu til neyslu heimilanna.

Matarsóun hefur efnahagsleg áhrif, með því að sóa mat er verið að kasta á glæ ákveðinni fjárfestingu. Árið 2007 var áætluð matarsóun af ætum hluta matvæla 1,3 Gt (þ.e. billjón tonn). Þá bendir rannsókn sem framkvæmd var af Landvernd árið 2015, til þess að matarsóun íbúa Reykjavíkur sé um 5800 tonn á ári svo væntanlega er árleg matarsóun allra landsmanna töluvert meiri.

Þátttaka í því að draga úr matarsóun þarf alls ekki að vera flókin og er í raun samfélagsleg ábyrgð okkar allra. Við eigum sem neytendur svo stóran þátt í því hvernig samfélagi við búum í og getum haft áhrifa á það í hvernig samfélagi við viljum búa.

Samkvæmt skýrslu FAO frá 2013 um sótspor matarsóunar, er stærsta sótsporið innan landbúnaðar framleiðslu á kornvörum (þ.m.t. bjór) og Þar á eftir er mest sóun á ávöxtum og sterkjumatvöru (s.s. rótargrænmeti). Þá hefur FAO einnig reiknað út að neytendur í Norður Ameríku og Evrópu séu að sóa um 95-115kg af mat á ári hverju á meðan Suður og Suðaustur Asía auk Afríku sunnan Sahara sóa aðeins um 6-11kg á hverju ári per neytanda. Talið er að árið 2050 verði 34% fleiri manns á jörðinni heldur en er í dag, það verður mikið verk að fæða allan þann fjölda og áætlað er að matvælaframleiðsla þurfi að aukast um 70% til að ná því markmiði, jafnvel meir ef við höldum áfram sömu sóun matvæla.

Hvað er verið að gera?
Frá 1995 hafa verið í gildi lög um matvæli, en tilgangur þeirra er að tryggja gæði, öryggi og hollustu matvæla eftir fremsta megni. Á sama tíma eru engin lög sem snúa beint að því hvernig neytendur eigi að fara með mat, það á ekki alltaf að þurfa nota boð og bönn til að ná fram góðum árangri öllu samfélaginu til heilla, við þurfum frekar að finna jafnvægið, það er þó jákvætt að ef skoðaðar eru fréttir um málaflokkinn sést að það eru einmitt neytendurnir sem að hefja máls á málefnum matarsóunar.

Umhverfisstofnun gerði árið 2015 könnun á matarsóun meðal Íslendinga. Helstu niðurstöður voru þær að fólk skipuleggur innkaup sín illa og finnst t.d. erfitt að áætla hvað þurfi að kaupa inn, hversu mikið magn þurfi að kaupa og á erfitt með að muna hvað sé til heima fyrir. Þá eru Íslendingar, samkvæmt þeirri könnun, ekki hrifnir af matarsóun og kostnaður við matvæli helsta hvatning fólks til að vinna gegn matarsóun.

Í könnuninni kemur einnig fram hverjar  ástæður fólks eru fyrir að henda mat. Algengustu ástæðurnar eru þær að maturinn er útrunninn, hann skemmdur eða uppfyllir ekki gæðakröfur neytandans. Allt virðast þetta vera þættir sem nokkuð auðvelt er að bæta úr.

Hér á landi eru ýmis fyrirtæki búin að fara yfir og breyta framleiðslu sinni til að draga úr úrgangi við framleiðslu. Það hefur gerst með aðkomu stjórnvalda, ákveðnum reglugerðum sem og vilja þeirra sjálfra. Sem dæmi hafa sláturhús tekið í gegn vinnuferli sitt til að minnka sláturúrgang. Grænmetisbændur hafa bent á þá hugarfarsbreytingu sem þarf til að fólk kaupi grænmeti minna eftir útlitinu en meira eftir nýtingarmöguleikum og hagkvæmni. Þá hefur Mjólkursamsalan verið að vinna að leiðum til að lengja geymsluþol mjólkurvara og samkvæmt rannsóknum jókst geymsluþol rjóma frá MS í 12 daga með tilkomu umbúða með skrúfuðum tappa.

Hvað getur neytandinn gert?
Þó svo að fyrirtæki og framleiðendur geri allt rétt, þá beinast spjótin að neytendum þegar varan fer úr þeirra höndum. Neytendur geta einnig reynt að gera sitt besta til að huga að umhverfinu, en ef ekki er hugað að nýtingu matvæla verður  matarsóunin mikil og er þá ávinningurinn af öðrum úrbótum á braut.

Erfiðleikarnir virðast oft liggja í því að fá neytendur til horfa á hlutina fyrst út frá umhverfis- og samfélagssjónarmiðum áður en þeir horfa á þá út frá peningalegu hliðinni. Þó er það sannað að hægt er að spara pening með því að tileinka sér þau vinnubrögð að sóa ekki mat, stundum þarf ekkert meira en gömul og góð húsráð. Sem dæmi getur það hjálpað að undirbúa matseðil fyrir vikuna, skipuleggja innkaup, huga að geymsluaðferðum og frágangi matvæla, fylgjast með ástandi matvælanna í skápum og skúffum, nýta afganga betur og ganga rétt frá þeim.

Íslensk heimili henda árlega þúsundum tonna af nothæfum mat eða mat sem hefði ef til vill verið hægt að bjarga með betri geymsluaðferðum eða frekari nýtingu. Það er því miður ekki hægt að mæla nákvæmlega hversu miklu er hent og á meðan þessar tölur eru á reiki, skekkir það alla útreikninga um fæðuöryggi sem og nauðsynlega matvælaframleiðslu.

Samfélagsábyrgðin á ekkert að vera minni hjá okkur sem einstaklingum og neytendum heldur en hjá fyrirtækjum. Öðru megin í heiminum höfum við sveltandi fólk og hinu megin er fólk að henda mat. Matarsóun er ein stærsta orsök koltvísýringslosunar í heiminum, en samt látum við eins og það komi okkur lítið við. Samkvæmt úttekt FAO frá 2011 er um þriðjungur matvælaframleiðslu í heiminum sem aldrei kemst á borð neytenda, við hljótum að gera okkur grein fyrir því að aukin ræktun og framleiðsla matar spilar ekki vel með þeim vatnsskorti og jarðvegseyðingu sem við erum að kljást við í heiminum.

Vettvangurinn fyrir hinn almenna neytenda til að vinna gegn matarsóun er að byrja hjá sjálfum sér. Þátttakan er ekki flókin, ef við höfum tíma til að hugsa út í það sem við erum að láta ofan í okkur til að halda okkur heilbrigðum, þá hljótum við að geta hugsað um það hvað við eigum að gera við matvælin til að leggja okkar af mörkum til umhverfismála. Skrefin þurfa ekki að vera stór, við verðum að halda sjálfbærninni og ábyrgðinni á lofti í gegnum alla keðjuna, alveg frá því að bóndinn sáir grasinu og þar til rjóminn er kominn á tertuna.

Borgarbyggð, í byrjun júlí 2019.
Jóhanna María Sigmundsdóttir