Beint í efni

Mataröryggi þjóðar og breytt heimsmynd

02.03.2008

Búnaðarþing var sett í dag við hátíðlega athöfn í Súlnasal Hótels Sögu. Setningarathöfnin fór fram undir yfirskriftinni "Að lifa af landsins gæðum" og hófst með ræðum þeirra Haraldar Benediktssonar formanns Bændasamtaka Íslands og Einars Kr. Guðfinnssonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Báðir fjölluðu þeir um þær breytingar sem orðið hafa á rekstrarumhverfi landbúnaðarins á undanförnum mánuðum og lögðu áherslu á að menn legðust á árarnar til þess að koma atvinnugreininni í gegnum þann skafl sem nú er við að etja. Forseti Íslands hr. Ólafur Ragnar Grímsson hélt hátíðarræðu þar sem hann meðal annars lagði til að gerður yrði sáttmáli um fæðuöryggi Íslendinga. 

Athöfnin var með hefðbundnu sniði og þegar þinghaldi hafði verið frestað að loknum ávörpum þeirra Haraldar og Einars Kristins var boðið upp á kaffi og með því, söng og hljóðfæraslátt. Þar voru á ferð Grundartangakórinn undir stjórn Atla Guðlaugssonar og Blásarakvintett Reykjavíkur sem vakti mikla lukku þegar hann lék lagið "Spjallað við bændur".

Landbúnaðarverðlaun hlutu í ár bændurnir á Stað og Árbæ í Reykhólasveit, ábúendur í Þórisholti í Mýrdal og Möðrudal á Efra-Fjalli.

Ræðurnar þrjár sem fluttar voru er hægt að nálgast á vefsíðu Búnaðarþings með því að smella hér.