
Mastersverkefni í burðarliðnum
14.09.2017
Harpa Ósk Jóhannesdóttir, dýralæknanemi, vinnur nú að mastersverkefni sínu í dýralækningum við háskólann í Kaupmannahöfn. Í verkefninu verður fjallað um burðarerfiðleika, kálfavanhöld og heilsufar mjólkurkúa á Íslandi.
Kálfavanhöld hafa löngum verið stórt vandamál í íslenskri mjólkurframleiðslu og árið 2016 voru kálfavanhöld til að mynda 14% á landsvísu. Þá situr Ísland á toppnum yfir flesta dauðfædda kálfa í Evrópu. Markmið verkefnisins er að gera úttekt á burðarerfiðleikum og umfangi burðarhjálpar hérlendis, kálfavanhöldum sem og heilsufari kýrinnar. Í því samhengi verður einnig litið lauslega á fóðrun og umhirðu gripa fyrir og eftir burð.
Til þess að safna gögnum hafa verið útbúnir tveir spurningarlistar; annar almenns efnis en hinn er sérstaklega ætlaður til að afla upplýsinga um hvern einstaka burð. Óskað er eftir að bændur skrái búsnúmer en það er til þess ætlað að bera megi saman svör úr hvorum spurningarlista fyrir sig. Ekki verður greint frá niðurstöðum einstakra búa og því fyllstu nafnleyndar gætt.
Almenni spurningarlistinn verður aðgengilegur á forsíðu Huppu. Listinn samanstendur af 13 spurningum (þar af 10 krossaspurningum) og honum þarf aðeins að svara einu sinni.
Spurningarlistinn um hvern einstaka burð verður aðgengilegur að lokinni burðarskráningu í Huppu, þá kemur upp hlekkur að spurningarlistanum þar sem spurt verður nánar út í gang burðar. Óskað er eftir að þeim spurningum sé svarað fyrir hvern burð á búinu. Listinn samanstendur af 16 spurningum (þar af 11 krossaspurningum) sem öllum er tiltölulega fljótsvarað.
Fyrir þá bændur sem ekki eru í rafrænu skýrsluhaldi verða sendir út spurningarlistar í pappírsformi.
Vert er að taka fram mikilvægi þess að allir burðir séu skráðir, óháð því hvort burður hafi gengið vel eða illa, þannig að niðurstöðurnar gefi raunhæfa mynd af burðarerfiðleikum, kálfavanhöldum sem og heilsufari mjókurkúa um og eftir burð á Íslandi.
Landssamband kúabænda hvetur alla mjólkurframleiðendur eindregið til að taka þátt í verkefninu.