Beint í efni

Margrét Gísladóttir verður framkvæmdastjóri LK

08.06.2016

Stjórn Landssambands kúabænda hefur gengið frá ráðningu Margrétar Gísladóttur sem framkvæmdastjóra LK frá og með næstu mánaðamótum, en þá mun Baldur Helgi Benjamínsson láta af störfum eftir 10 ár hjá LK.

 

Margrét er menntaður almannatengill og markþjálfi og hefur víðtæka reynslu í stjórnun og ráðgjöf á sviði upplýsinga- og kynningarmála. Hún hefur undanfarið starfað sem ráðgjafi hjá KOM ráðgjöf og rak áður eigið ráðgjafafyrirtæki, Taktík ehf. Árin 2013-2015 starfaði hún sem aðstoðarmaður utanríkisráðherra og sem sér­stak­ur ráðgjafi ráðherra í for­sæt­is­ráðuneyt­inu.  Áður starfaði hún við kynningar- og markaðsmál hjá Árnasonum auglýsingastofu. Einnig hefur hún setið sem varamaður í stjórn Íslandsstofu og Iceland Naturally.

 

 

„Við vorum sammála um það að hugsa aðeins út fyrir kassann og fara nýjar leiðir þegar kom að ráðningu framkvæmdastjóra. Margrét býr yfir fjölbreyttri reynslu sem mun koma sér vel fyrir næstu verkefni sem liggja fyrir hjá okkur. Fyrst og fremst erum við að horfa til búvörusamninganna og eftirfylgni þeirra breytinga sem þeim fylgja, ásamt því að leggja aukna áherslu á markaðs- og kynningarmálin hjá okkur. Á sama tíma og við bjóðum Margréti velkomna til starfa vil ég nýta tækifærið og þakka fráfarandi framkvæmdastjóra fyrir vel unnin störf,” segir Arnar Árnason, formaður LK.

 

Margrét Gísladóttir, verðandi framkvæmdastjóri Landssambands kúabænda

 

Margrét er fædd 19. júlí árið 1986 og er uppalin á Glaumbæ í Skagafirði. Margrét lauk stúdentsprófi frá Borgarholtsskóla árið 2006, diplómu í almannatengslum og markaðssamskiptum frá Háskólanum í Reykjavík árið 2011 og markþjálfun frá sama skóla árið 2015. Einnig nam hún félags- og fjölmiðlafræði við Háskóla Íslands árið 2012.

 

Um LK

Landssamband kúabænda (LK) er hagsmunagæslufélag nautgripabænda á Íslandi og hefur verið í forsvari fyrir kúabændur landsins í öllum veigamiklum málum er lúta að nautgriparækt. Í stórum dráttum má skipta verkefnum sambandsins í þrjá þætti: fagleg mál, félagsmál og markaðsmál. Að LK standa í dag 13 aðildarfélög, sem mynda Landssamband kúabænda eins og það er í dag.

 

 

Allar frekari upplýsingar veitir:

Arnar Árnason,

formaður LK

sími: 863 2513

tölvupóstur: arnar@naut.is