Margir kúabændur ósáttir við skuldajöfnun eftirlitsgjalds
02.04.2004
Síðustu tvo daga hafa fjölmargir kúabændur kvartað til LK vegna skuldajöfnunar ríkisins á eftirlitsgjaldi fyrir fjósaskoðun nú um mánaðarmótin. Allir bændurnir hafa jafnframt fengið sendan greiðsluseðil, þannig að hætta getur því skapst á tvígreiðslu sama eftirlitsgjaldsins. Þá var skuldajafnað 12 dögum fyrir eindaga skuldarinnar, sem hefur ekki síður vakið reiði umbjóðenda LK.
Landssamband kúabænda hefur þegar óskað eftir skriflegum skýringum frá Embætti yfirdýralæknis vegna málsins.