Margir kúabændur í vanda í Nýja-Sjálandi
26.07.2010
Hinum megin á hnettinum, í Nýja-Sjálandi, eru kúabændur í efnahagsþrengingum líkt og í Evrópu. Þar hefur mjólkurverð sveiflast afar mikið á liðnum árum og þekkja því kúabændurnir allt um að gott gengi geti breyst með skömmum fyrirvara. Þrátt fyrir það gerði hátt mjólkurverð, fram til efnahagshrunsins árið 2008, það að verkum að margir kúabændur fóru út í fjárfestingar s.s. nýja mjaltaaðstöðu, byggingu íbúðarhúss eða jarðakaup á háu verði. Sumir þessara bænda munu verða gjaldþrota.
Annars eru helstu tíðindi frá mjólkurframleiðslunni í Nýja-Sjálandi þau að
margir bændur voru ósáttir við þá stefnu fyrrum stjórnar Fonterra, stærstu afurðastöðvarinnar í eigu kúabænda, að opna fyrirtækið fyrir fjárfestingum annarra en kúabænda. Var þessi stefna mörkuð til þess að auðvelda fyrirtækinu aðgengi að fjármagni, en fjölmargir kúabændur voru ekki á því að fara ætti þessa leið til þess að styrkja eiginfjárstöðu Fonterra. Hefur þessi óánægja kúabænda nú leitt til þess að skipt hefur verið um nokkra af stjórnarmönnum í Fonterra og er nú leitað leiða til þess að finna fjármagn án þess að opna fyrir eignahald á fyrirtækinu.
Í Nýja-Sjálandi er Fonterra bæði eitt áhrifamesta og þekktasta fyrirtæki landsins sem til þessa hefur átt afar góðu gengi að fagna. Af þeim sökum er áhugi margra fjárfesta mikill á fyrirtækinu. Eins og áður segir þá eru eigendur þess, kúabændurnir, ekki á því að hleypa öðrum að sínu fyrirtæki enda byggir góður árangur þess á góðri vinnu kúbændanna sjálfra og ekki ástæða að láta aðra fleyta rjómann.