Margir japanskir kúabændur hella niður mjólk
28.03.2011
Nú þegar liðnar eru tvær vikur frá jarðskjálftanum mikla í Japan 13. mars sl. hafa margir kúabændur ekki getað lagt inn afurðir búa sinna. Í viðtali við Skov og lantbruk segir frá Yoshuyuki Hanzawa, sem hefur þurft að hella niður allri mjólkinni frá sínum 160 kúm frá því að skjálftinn reið yfir. Yoshuyuki býr í 70 km fjarlægð frá Fukushima kjarnorkuverinu en sem kunnugt er varð þar stórtjón á nokkrum kjarnakljúfum með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Nú þegar hefur mælst geislavirkni í mjólk frá kúabúum langt utan við hið rýmda 20 km. svæði frá kjarnorkuverinu. Hve langt frá verinu slík mjólk er að mælast hefur ekki verið gefið upp.
En það er ekki eingöngu vegna ótta við geislamengaða mjólk sem hann þarf að hella niður heldur vegna þess að markaðurinn fyrir mjólk og mjólkurafurðir á svæðinu er ekki lengur til staðar. Þá er staðan á kúabúi hans og fleiri bænda í nágrenninu grafalvarleg vegna þess að fóður er af skornum skammti en margir bændur treysta á reglubundna fóðurflutninga, nokkuð sem hefur verið í lamasessi frá jarðskjálftanum. Þá olli flóðbylgjan alvarlegum skemmdum á stóru svæði, þó svo að bú Yoshuyuki hafi sloppið við flóðið.
Þegar jarðskjálftinn reið yfir fór rafmagnið af héraðinu og kom ekki fyrr en eftir nokkra daga. Hægt var að mjólka kýrnar með rafal sem sveitarfélagið átti, en hver bóndi mátti þó eingöngu mjólka einu sinni á dag enda þurfti rafallinn svo á næsta bæ. Af þessum sökum var mjólkinni hellt niður, enda ekki hægt að kæla hana. Skortur á eldsneyti er einnig byrjaður að gera vart við sig og ef ekki leysist úr mun það valda gríðarlegum vandræðum í japönskum landbúnaði. /SS