Beint í efni

Margar kýr mjólkaðar í ágúst!

21.09.2011

Samkvæmt yfirliti frá Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði (SAM) nam innvegin mjólk í ágúst sl. 10,6 milljónum lítra en á sama tíma í fyrra voru 10,0 milljónir lítra innvegnir til afurðastöðvanna og nemur aukningin í ár 5,4%. Þessi niðurstaða er sér í lagi ánægjuleg í ljósi þess að meðalafurðirnar lækkuðu í ágúst samkvæmt skýrsluhaldsupplýsingum BÍ og því ljóst að fleiri kýr eru mjólkaðar nú en í fyrra.
 
Það sem af er ári hefur heildarframleiðsla kúabúa landsins legið nokkuð undir framleiðslu síðasta árs en mikil aukning í ágúst vegur muninn verulega upp. Fyrstu átta mánuði ársins nam framleiðslan 85,3 milljónum lítra en í fyrra nam hún 85,8 milljónum lítra og er framleiðslan nú því 0,7% minni en á sama tíma í fyrra.
 
Þegar litið er til sölunnar síðustu 12 mánaða kemur fram að salan hefur aðeins tekið við sér á ný og sýna vöruflokkarnir rjómi, ostar og duft mestan framgang. Sala mjólkurvara á próteingrunni síðustu 12 mánuði var 114,0 milljónir lítra og sala á fitugrunni var 110,4 milljónir lítra. Greiðslumarkið nú er 116 milljónir lítra og því stefnir enn í sömu niðurstöðu og fyrr í sumar, þ.e. að skerða þurfi greiðslumark mjólkurinnar á komandi greiðslumarksári/SS.